132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Áfengislög.

71. mál
[20:53]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég bendi hv. þingmanni á umfjöllun í greinargerð með frumvarpinu um túlkun EFTA-dómstólsins og Evrópudómstólsins. Ég vík að því þar að í nóvember árið 2003 féll dómur í Svíþjóð þar sem dómstóllinn komst að því, að undangengnum forúrskurði Evrópudómstólsins, að áfengisbann bryti gegn reglum um frjálst flæði vöru og þjónustu og taldi rétturinn að hægt væri að halda áfengisneyslu niðri með aðferðum sem hefðu minni áhrif á markaðsfrelsið. Auglýsingabannið væri með öðrum orðum brot á reglunni um meðalhóf. Þetta er sama niðurstaða og norski undirrétturinn komst að, að undangengnu ráðgefandi áliti frá Evrópudómstólnum. Dómstólarnir telja því að það sé ekki verjandi að kveða á um algert auglýsingabann ef hægt er að beita vægari reglum til að ná fram sama markmiði, að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefur. Mig grunar að sú regla sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði grein fyrir í ræðu sinni og fram kemur í hans eflaust ágæta frumvarpi samræmist ekki þeim reglum og þar með reglum EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga.

Varðandi tjáningarfrelsið og mannréttindabrotin þá er í stjórnarskránni heimilt að skerða tjáningarfrelsið með hliðsjón til almannaheilla. Ég tel að það séu skýrari rök fyrir því að skerða það á sterku áfengi, yfir 22%, (Forseti hringir.) til almannaheilla, en á léttu áfengi.