132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Lög um fæðingarorlof – undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi.

[12:05]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Þetta mál varðar nokkur grundvallaratriði m.a. jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en réttur foreldra hvort sem er til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða greiðslu fæðingarstyrks er sjálfstæður réttur hvors foreldris fyrir sig. Lögin kveða á um réttindi foreldra eftir því hvort þeir eru virkir á innlendum vinnumarkaði, eru í námi eða standa utan vinnumarkaðar.

Við mat á því til hvaða greiðslna foreldri á rétt samkvæmt umræddum lögum er eingöngu litið til aðstæðna þess foreldris sem í hlut á. Þannig hafa aðstæður annars foreldrisins ekki áhrif á rétt hins.

Skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks til námsmanna er í fyrsta lagi að foreldri hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Í öðru lagi hafi átt lögheimili hér á landi við fæðingu, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og í þriðja lagi hafi átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuðina fyrir framangreindan tíma.

Það að vera maki námsmanns, hæstv. forseti, veitir einstaklingi ekki sérstakan aukinn rétt samkvæmt lögunum heldur ákvarðast réttur hans af því hvort hann fullnægir skilyrðum laganna til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, til greiðslu fæðingarstyrks til þeirra sem standa utan vinnumarkaðar eða fæðingarstyrks til námsmanna. Það gildir hið sama um maka annarra hópa foreldra. Ekki þóttu hníga rök til þess að sá hópur foreldra sem á maka sem eru námsmenn gæti leitt rétt sinn af réttindum maka sinna enda gera lögin ekki ráð fyrir slíku. Framkvæmdin var fyrir gildistöku umræddra laga önnur, en hún þótti ekki eiga sér skýra lagastoð. Það þótti, eins og kom fram í upphafi máls míns, hæstv. forseti, stangast á við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, enda staða maka ekki frábrugðin stöðu annarra sem fylgja mökum sínum til annarra landa og það er raunverulega kjarni málsins, hæstv. forseti.

Námsmenn hafa hins vegar bent mér á ýmis atriði sem mér finnst ástæða til að fara yfir varðandi lögin um fæðingar- og foreldraorlof og fæðingarstyrkinn. Það erum við að gera og hugsanlega verða lagðar til einhverjar breytingar á þeim lögum.