132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Lög um fæðingarorlof – undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi.

[12:09]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða stöðu maka námsmanna erlendis og rétt þeirra til fæðingarstyrks héðan frá Íslandi. Svar hæstv. félagsmálaráðherra olli mér alveg gríðarlegum vonbrigðum vegna þess að svarið var mjög kerfislegt og er augljóst að ekki á að bregðast við þeirri stöðu sem fjölmargir makar námsmanna á erlendri grundu eru í og þá ekki síst í Danmörku, eins og fram hefur komið í umfjöllun frétta á undanförnum dögum sýnir. Það veldur mér gríðarlegum vonbrigðum. Einnig veldur það mér vonbrigðum að þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Hjálmar Árnason, skuli síðan vera sendur hingað upp af Framsóknarflokknum til að drepa þessu máli á dreif vegna þess að það var vel vitað að við kæmum upp og ræddum þetta.

Virðulegi forseti. Þá stöðu sem upp er komin hjá fjölskyldum námsmanna á erlendri grundu tel ég vera mjög alvarlega vegna þess að við vitum að þetta getur valdið því að fjölskyldur sundrist og þurfi að flytja í sundur tímabundið ef barn fæðist sem er auðvitað ekki kerfi eða staða sem við viljum búa ungu barnafólki eða bjóða íslenskum ríkisborgurum upp á.

Ég vil, virðulegi forseti, skora á hæstv. félagsmálaráðherra að ganga í þetta mál og leysa það. Þetta eru ekki slíkar stærðir sem við erum að tala um og fæðing barns á að vera yndislegur tími í lífi hverrar fjölskyldu og þá eiga ungar barnafjölskyldur ekki að standa í stappi við kerfið ef þær hafa ákveðið að búa erlendis tímabundið vegna náms annars foreldrisins. Við eigum að setja lög til að létta undir með barnafólki en ekki lög sem vinna gegn því.

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur skora á hæstv. félagsmálaráðherra að ganga í að leysa málin með því að breyta lögunum aftur og veita öllu því fólki sem núna stendur í þessu fram að lagabreytingu undanþágu frá þessum lögum.