132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Lög um fæðingarorlof – undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi.

[12:15]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað dálítið sérkennilegt að hér sé komið upp undir liðnum um störf þingsins af hv. þm. Hjálmari Árnasyni til að setja ofan í og gera athugasemdir við frumkvæði eins félaga okkar, hv. þm. Marðar Árnasonar og fleiri, sem hafa haft frumkvæði að því að búa til þingmál og flytja það hér eins og réttur okkar segir til um. Ég minnist þess ekki í frekar stuttri þingsögu minni að komið hafi verið hér upp undir liðnum um störf þingsins til að gera athugasemdir við frumkvæði, dug, þor og kjark þingmanna. En hér eru þingmenn skammaðir fyrir það.

Þetta er ekki í fyrsta skipti, virðulegi forseti, sem Samfylkingin tekur forustu í fjölmiðlamálum. Það hefur margoft gerst. Samfylkingin hefur flutt mörg mál um þetta. Samfylkingin er með sérstakan fjölmiðlahóp sem m.a. er undir forustu hv. þm. Marðar Árnasonar. Ég skil því ekki þessa gagnrýni og viðkvæmni. Málið er að þegar talað er um sátt í fjölmiðlamálinu, jú, það var komin sátt, var það ekki, frá fjölmiðlanefndinni?

Síðan var landsfundur Sjálfstæðisflokksins haldinn og þá var þar formaður sem var að hætta og kveðja. Og hann hafði ýmislegt á hornum sér í þeirri ræðu og m.a. sló þessa ímynduðu sátt út af borðinu. Í framhaldi af því komu þeir sem komu á eftir, eins og hæstv. menntamálaráðherra og breyttu um kúrs í fjölmiðlamálinu. Mér finnst þetta því dálítið hjákátlegt.

Í fyrsta lagi var Sjálfstæðisflokkurinn svínbeygður úr þessari ræðu fyrrverandi formanns og mér finnst það mjög skrýtið að verið sé að gagnrýna forustu hv. þm. Marðar Árnasonar að því máli sem hér hefur verið lagt fram. Ég held að það sé ekki stórkostlega alvarlegt mál. En þetta sýnir bara frumkvæðið og það sem kemur oft hingað til Alþingis frá Samfylkingunni.