132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Lög um fæðingarorlof – undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi.

[12:22]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hlusta á þessa umræðu. Hér gengu þingmenn Samfylkingarinnar það langt að þeir hreinlega eignuðu sér þennan dagskrárlið og voguðu sér að koma hér upp og segja að ef þeir ætluðu hér upp undir þessum lið þá skyldu bara aðrir sitja. Í ofanálag hefur það verið staðfest, ekki bara af hálfu stjórnarliða heldur líka af hálfu stjórnarandstöðu, að hér kemur þessi flokkur sem jafnan talar um samráð, talar um umræðustjórnmál, talar um lýðræðisleg vinnubrögð og mikilvægi þess að ná sátt í öllum málum þegar svo ber undir, fer síðan í vinnu og sýnir — ég skrifaði þetta niður, þetta var svo stórkostlega sagt af varaformanni þingflokks Samfylkingarinnar — frumkvæði, dug og þor, flytur þingmál þar sem þeir pikka út eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson kallaði bestu bitana. Frumkvæði, dug og þor, að flytja þingmál. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Sjálfsmat þessa fólks er ekki mikið ef það telur að það að taka úr einni skýrslu einhverja punkta og flytja þingmál um það, það sé að sýna frumkvæði, dug og þor. (Gripið fram í.) Hér er ekki um mikið sjálfsmat að ræða.

Fréttin er hins vegar sú að það er ekki til neins að vinna með þessu fólki, því að allt það sem það talar um og kemur að samráði, vinnu og öðru slíku skiptir bara engu máli þegar á hólminn er komið, nákvæmlega engu máli. Og það hefur verið staðfest hér, ekki bara af stjórnarliðum heldur af stjórnarandstöðu líka og það er fréttin. Ég bið því hv. þingmenn Samfylkingarinnar að hlífa okkur við tali um samráð, umræðustjórnmál og önnur slík hugtök sem engu máli skipta hjá þessu fólki.