132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Embætti útvarpsstjóra.

283. mál
[12:33]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi svars míns nefna sérstaklega til sögunnar 6. gr. laga um Ríkisútvarpið, núgildandi lög nr. 122/2000, en samkvæmt henni skipar menntamálaráðherra útvarpsstjóra til fimm ára í senn. Í lögunum er ekki að finna lögbundið starfsgengisskilyrði í embætti útvarpsstjóra og síðast þegar embættið var auglýst laust til umsóknar voru í auglýsingunni ekki sett sérstök starfsgengisskilyrði og engar athugasemdir komnar fram eða settar fram vegna þess.

Þá er í lögunum ekki gert ráð fyrir umsögn útvarpsráðs eða annarra vegna skipunar útvarpsstjóra. Ég taldi rétt að hafa sama hátt á við skipun í embætti útvarpsstjóra síðasta sumar en skýrt var tekið fram í auglýsingunni að umsóknir skyldu vera með ítarlegum upplýsingum um menntun og starfsferil. Vegna sérstaks eðlis embættis útvarpsstjóra taldi ég ekki rétt að gera sérstakar kröfur til umsækjenda um tiltekna menntun eða starfsreynslu, m.a. til að ég hefði úr fjölbreyttum hópi umsækjenda að velja. Miðað við að ráðuneytinu bárust alls 23 umsóknir um embættið frá hópi einstaklinga með fjölbreytta menntun og starfsreynslu er ég sannfærð um að það hafi verið rétt ákvörðun.

Eins og venja er voru umsækjendur metnir á grundvelli þeirra umsókna og þeirra gagna sem þeir skiluðu með þeim. Viðbúið var, reyndist þess þörf, að kalla umsækjendur í viðtal þannig að hægt væri að leggja ítarlegra mat á umsóknir þeirra en í þessu tilviki taldi ég ekki þörf á því og mun koma síðar að þeim þætti ákvörðunar minnar.

Þegar rætt er um skipun útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins er mikilvægt að hafa í huga að ekki er skýrt mælt fyrir um það í lögum hvað beri að leggja til grundvallar þegar tekin er afstaða til þess hver skuli hljóta skipun í embætti. Því var það í meginatriðum í mínu valdi að ákveða á hvaða sjónarmiðum ég byggði ákvörðun mína um skipun í embætti, en mér bar og ber ávallt við slíkar aðstæður, eins og reyndar við töku stjórnsýsluákvarðana almennt, að tryggja að ákvörðunin byggði á málefnalegum sjónarmiðum. Þá leiðir einnig af rannsóknarreglu stjórnsýslulaganna að ég varð að sjá til þess að nægar upplýsingar lægju fyrir um þau atriði sem þýðingu áttu að hafa í ljósi þeirra sjónarmiða sem mat mitt tók mið af og ákvörðun mín byggði á.

Hver voru síðan hin málefnalegu sjónarmið, virðulegi forseti? Við val á milli umsækjenda til að valda embætti útvarpsstjóra lagði ég til grundvallar eftirfarandi: Annars vegar skilgreiningu á starfsemi stofnunarinnar, hlutverki hennar og skyldum og hlutverki útvarpsstjóra, og hins vegar mat á því hvaða getu og hæfileika þyrfti til að valda embættinu og hvernig viðkomandi einstaklingur uppfyllti þær kröfur.

Það er óþarfi að fjölyrða um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins. Þær eru taldar upp í lögum um stofnunina en einnig hafði ég í huga frumvarp það sem ég lagði fram á síðasta þingi þar sem hlutverk stofnunarinnar sem fjölmiðils sem starfar í almannaþjónustu er skilgreint allítarlega og gert með sambærilegum hætti í því frumvarpi sem nú er til umræðu á hinu háa Alþingi og fjallar um Ríkisútvarpið hf.

Varðandi getu og hæfileika og mat á umsækjendum því tengdu lá beint við að líta til einstaklingsbundinna þátta og leggja mat á þá, hvort umsækjandi hefði sýnt fram á getu til að marka stefnu fyrir stofnun sem gegnir svo veigamiklu og fjölþættu hlutverki sem Ríkisútvarpinu er ætlað, hvort umsækjandi hefði sýnt fram á að geta leitt starf fjölmenns hóps sem í sameiningu þarf að mæta fjölbreytilegum kröfum, hvort umsækjanda mundi farnast vel að stjórna og ná markmiði sem eru menningarlegs, rekstrarlegs og svo margvíslegs eðlis og hvort hann hefði þá þekkingu og yfirsýn sem ætlast mætti til af honum. Þetta og aðra eðliskosti, getu og hæfileika umsækjenda lagði ég mat á.

Verðandi útvarpsstjóri varð að hafa skýra sýn á hlutverk Ríkisútvarpsins og sú sýn þurfti vitanlega að taka mið af hlutverki stofnunarinnar eins og það er skilgreint í lögum, þá ekki síst af hlutverki hennar í menningarlegu tilliti. Jafnframt þurfti verðandi útvarpsstjóri að mínu mati að hafa skýra sýn á það með hvaða hætti hann hygðist leiða starf stofnunarinnar, koma á þeim umbótum í starfseminni sem æskilegar teldust og hvernig þeim markmiðum sem starfsemin lyti og ætti að lúta yrði náð. Verðandi útvarpsstjóri stýrir stofnun sem hefur víðfeðmt hlutverk og umfangsmikinn rekstur.

Það er afar mikilvægt að skilningur verðandi útvarpsstjóra á hlutverki stofnunarinnar og hlutverki hans sjálfs sem leiðir daglegt starf sé til þess fallinn að starfsemi hennar geti orðið framsækin, metnaðarfull og farsæl.

Miðað við þau viðbrögð sem ég fékk síðan í kjölfar þeirrar ákvörðunar minnar að skipa Pál Magnússon útvarpsstjóra í embættið og ekki síst í ljósi þess að enginn hinna umsækjendanna taldi ástæðu til að óska eftir sérstökum rökstuðningi vegna þessarar embættisveitingar leyfi ég mér að segja, virðulegi forseti, að ákvörðunin hafi verið fagleg og byggst fyrst og fremst á málefnalegum sjónarmiðum.