132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Embætti útvarpsstjóra.

283. mál
[12:40]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það, ég held að ráðning Páls Magnússonar í embætti útvarpsstjóra hafi líklega verið einhver best heppnaða opinber ráðning í langan tíma. Eftir röð ákaflega óheppilegra og vondra pólitískra ráðninga meðal stjórnvalda og framkvæmdarvaldsins virðist þarna hafa tekist vel til og ég held að Ríkisútvarpið hafi fengið ákaflega góðan liðsstyrk. Ég vona að það hafi komið fram hér og muni koma fram að vel hafi verið staðið og eðlilega að ráðningunni sjálfri hvað varðar auglýsingu, hæfniskröfur og fleira. Það þarf að vera sátt um störf útvarpsstjóra og með ráðningu Páls Magnússonar í stól útvarpsstjóra var að mörgu leyti brotið í blað, ákaflega heppilegur maður fenginn í verkið og líklega réttur maður á réttum tíma til að rífa upp starfsemi útvarpsins, færa hana til nútímans og ná breiðri sátt um hana og þá starfsemi sem fram undan er.

Þess vegna kannski sérstaklega jukust vonir um að lögin um Ríkisútvarpið yrðu betur úr garði gerð til að styðja undir þá jákvæðu þróun sem (Forseti hringir.) þarf að eiga sér stað í málefnum Ríkisútvarpsins.