132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Samningur um menningarmál.

428. mál
[12:57]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að ræða um samning um menningarmál milli menntamálaráðuneytisins og Eyþings sérstaklega, og ber að þakka fyrir þessa fyrirspurn.

Ég verð auðvitað að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að hlutirnir gerist ekki hraðar en raun ber vitni. Það kom fram í máli hv. þm. Kristjáns Möllers að í síðasta svari hæstv. menntamálaráðherra hefði komið fram að hún væri ekki enn þá búin að hitta talsmenn Eyþings. Nú held ég að það væri tilvalið að fara og hitta þau og nota þetta góða fordæmi sem við höfum af samningum á Austurlandi og nú síðast á Vestfjörðum og auðvitað við Akureyri, þannig að það sé hægt að koma á fleiri slíkum samningum.

Síðan ætla ég að leiðrétta hæstv. menntamálaráðherra smávegis. Hún talaði um Listasafn Akureyrar. Þar er lögð mikil áhersla á að það heiti Listasafnið á Akureyri (Forseti hringir.) vegna þess að það er ekki aðeins fyrir Akureyringa heldur fyrir alla landsmenn.