132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Samningur um menningarmál.

428. mál
[13:00]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Mér finnst hv. þingmaður óþarflega svartsýnn en það getur vel verið að hann sé bara að sýna raunsæi í þessum málum.

Ég vil sérstaklega fagna þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um menningarsamninga og mikilvægi þeirra og einnig þeirri umræðu sem við höfum tekið hér varðandi þróun menningarsamninga og mikilvægi þeirra heima í héraði, sem hefur einmitt komið í ljós. Það skiptir máli að við reynum að móta og skapa ákveðna undirstöðu, skapa tækifæri fyrir fólkið til að njóta og skapa ákveðna menningu. Það hefur sýnt sig að þetta er að verða einn af allra öflugustu þáttum byggðastefnunnar í landinu. Ég fagna því sérstaklega og þakka þær undirtektir sem þingmenn hafa sýnt mér í því og hvatningu varðandi það að halda áfram að gera menningarsamninga.

Ég vil hins vegar ekki, eins og ég gat um í svari mínu áðan, taka Eyþing fram yfir önnur svæði. Við erum með ákveðin verkefni þar í gangi. Við þurfum að fara í að endurnýja stóra samninginn við Akureyrarbæ sem skapar honum svigrúm varðandi Leikfélag Akureyrar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Listasafn Akureyrarbæjar sem er rekið með miklum myndarbrag. Það mál er allt í ágætum farvegi en ég tel mikilvægt að við reynum að líta á þessi mál heildstætt, að við reynum að fara áfram með menningarsamningana líka á þeim svæðum og reynum að klára þá líka á þeim svæðum sem ég gat um áðan, t.d. á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og Suðurlandi.