132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Fjarskiptasafn Landssímans.

429. mál
[13:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra:

Hvaða áform eru uppi um framtíð og starfsemi Fjarskiptasafns Landssímans í gömlu Loftskeytastöðinni við Suðurgötu nú þegar Síminn hefur verið seldur og Þjóðminjasafninu falið að varðveita munina úr safninu?

Á heimasíðu Símans stendur eftirfarandi klausa og var hún skrifuð 25. febrúar 2005 þegar sala Símans var um það bil að ganga yfir. Í klausunni segir, með leyfi forseta:

„Fjarskiptasafn Símans við Suðurgötu hefur verið fært ríkissjóði til eignar samkvæmt ákvörðun stjórnar Símans. Um er að ræða húsið sem áður hýsti gömlu Loftskeytastöðina og alla munina sem þar eru sýndir. Þjóðminjasafnið mun fara með umráð og umsýslu safnsins og er stofnuninni frjálst að nýta húsið og ráðstafa því á þann hátt sem best þjónar markmiðum þess. Þjóðminjasafnið mun sjá til þess að þáttur fjarskipta verði áfram sýnilegur í húsinu.“

Frú forseti. Mér hefur alltaf fundist það alvarlegt hvernig menningarverðmæti í eigu þjóðarinnar hafa getað fylgt með í kaupunum þegar ríkisstjórnin hefur einkavætt fyrirtæki eða stofnanir í eigu þjóðarinnar. Með Landsbankanum fylgdu ómetanleg menningarverðmæti í formi listaverka sem trúlega voru að stórum hluta gefin nýjum eigendum bankans og með Símanum fylgdu verðmæti Fjarskiptasafns Íslands eða Landssímans, fullt af munum sem starfsmenn Landssímans og þar áður Pósts og síma höfðu í gegnum áratugina safnað og varðveitt af áhuga og tilfinningu fyrir því að um menningarverðmæti væri að ræða. Mununum komu þessir hugsunarsömu starfsmenn fyrir í gömlu Loftskeytastöðinni við Suðurgötu þar sem á endanum var opnað Fjarskiptasafn Landssímans.

Svo kom að því að misvitrir stjórnarherrar hlutafélagavæddu og síðar einkavæddu Landssímann og til varð fyrirtækjasamsteypa kölluð Síminn. Nokkru fyrir undirritun endanlegs kaupsamnings afhenti stjórnarformaður Landssíma Íslands hf. Fjarskiptasafnið þjóðinni aftur til eignar. Þjóðminjasafnið, sem enn er í þjóðareigu, og verður vonandi um langa framtíð, frú forseti, tók við Fjarskiptasafninu til varðveislu en við vitum það öll að Þjóðminjasafnið hefur gengið í endurnýjun lífdaga við að komast aftur í húsnæði sitt við Suðurgötu og hefur bryddað upp á afar mörgum fróðlegum og skemmtilegum nýjungum eftir að það komst aftur heim.

Nú hafa borist fregnir af því að nýting hússins, gömlu Loftskeytastöðvarinnar, sé með einhverjum hætti að breytast. Vitandi það að allir gömlu munirnir sem starfsmenn gamla Landssímans söfnuðu saman eru þar til húsa og vitandi það að Þjóðminjasafnið hefur yfir þessum munum að ráða þá held ég að það sé fýsilegt fyrir þingheim og þjóðina að fá að heyra hvaða áform séu þarna á döfinni, hvaða áform séu uppi um starfsemi Fjarskiptasafns Landssímans.