132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Fjarskiptasafn Landssímans.

429. mál
[13:08]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það var ánægjulegt að heyra hæstv. menntamálaráðherra lýsa því hvernig muni verða staðið að starfsemi Fjarskiptasafns Landssímans og ánægjulegt að heyra þessa samvinnu við safnið á Seyðisfirði og allt gott um það að segja, heyrist mér. En það leiðir hugann að því hvernig var hins vegar farið með, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á, listaverkasafn Landsbankans. Þess vegna er kannski ástæða til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort það komi til greina að fara fram á að Landsbankinn skili þjóðinni aftur þeim listaverkum sem fylgdu með í kaupunum en allir gleymdu að minnast á — sem er auðvitað furðulegt mat á verðmætum og virðingarleysi við bæði listaverkasafnið og þá listamenn sem þar eiga verðmæt verk.