132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Fjarskiptasafn Landssímans.

429. mál
[13:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin og lýsa ánægju minni með að Þjóðminjasafnið skuli efna til öflugs samstarfs við Tækniminjasafn Austurlands varðandi sýningu um fjarskiptasögu Íslendinga. Þetta er dæmi um það á hvern hátt Þjóðminjasafnið getur unnið sem þjóðarstofnun með stórt, öflugt hjarta í Reykjavíkurborg, í höfuðborg landsmanna, og átt síðan mjög opin tengsl og opið samstarf um einstakar sýningar við þau söfn sem tengjast því úti um allt land.

Ég verð að lýsa því yfir að ég hlakka til að sjá hvernig tekst til með að búa til þessa tvískiptu sýningu sem að hluta til verður fyrir austan og að hluta til í gömlu Loftskeytastöðinni við Hringbraut.

Í mínum huga er Fjarskiptasafn Landssímans afar merkilegt safn. Mér finnst það áhugavert og ég vona að tryggt verði að það verði áfram aðgengilegt, fyrst og fremst kannski fyrir íslensk skólabörn. Ég met það svo af máli hæstv. ráðherra að hugmyndin sé að hafa safnið áfram opið við Hringbrautina þannig að hægt sé að nýta það í safnfræðslu og sýninguna sem þar verður til staðar.

Mál hæstv. ráðherra minnir okkur líka á þá umræðu sem hér hefur farið fram um annars vegar sýningu og hins vegar safn. Ég held að það sé þess virði að fara ofan í saumana á því hvernig safn getur verið safn margra muna en það að setja munina á sýningu er annað — það er ekkert einfalt mál að vinna sýningar úr safngripum og þarf að vera á hendi fagmanna. Ég treysti fagmönnum Þjóðminjasafnsins og Tækniminjasafnsins til að vinna afar vel hvað það snertir.

Svo var það kannski rúsínan í pylsuendanum í ræðu hæstv. ráðherra, að stofnun um sjálfbæra þróun ætti að fara í kjallarann á gömlu Loftskeytastöðinni. Ég verð að segja að það vekur sérstakan áhuga hjá mér og ég vona að ég eftir að fá að fara í heimsókn í kjallarann í þeim tilgangi að skoða þá nýju stofnun.