132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Réttur sjúklinga við val á meðferð.

430. mál
[13:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra. Um tvær spurningar er að ræða, þær varða rétt sjúklinga við val á meðferð.

1. Hver er réttur sjúklings, sem haldinn er alvarlegum sjúkdómi, við val á meðferð til bættrar heilsu?

2. Hvað ræður því hvers konar meðferð nýtur greiðsluþátttöku almannatrygginga?

Frú forseti. Kveikjan að þessari fyrirspurn er viðtal við Eddu Heiðrúnu Backman, leikkonu og leikstjóra, sem flutt var í Ríkisútvarpinu, sjónvarpi fyrir skemmstu. Þar sagði hún frá reynslu sinni af því að takast á við MND-sjúkdóm, sjúkdóm sem læknavísindin telja ólæknandi en óhefðbundnar lækningar, og þar með talið græðarar, hafa þróað ákveðnar aðferðir sem virðast hjálpa verulega mikið við meðhöndlun og gera sjúklingum sem þjást af MND-sjúkdómnum lífið mun bærilegra.

Edda Heiðrún lýsti því á hvern hátt hún hefði þegið þjónustu græðara í þessum efnum. Hún hefði fundið að þau lyf sem læknavísindin hafa við sjúkdómnum gerðu henni ekki gott, hún fyndi miklu meiri batamerki og henni liði miklu betur við hinar óhefðbundnu meðferðir. Það sem íþyngdi henni í þeim efnum væri að sjálfsögðu það að Tryggingastofnun tæki ekki þátt í að greiða þá meðferð sem hún kysi. Þar erum við að tala um nudd, svæðanudd, nálarstungur, hómópatameðferð og fleira þvílíkt.

Tryggingastofnun væri hins vegar samkvæmt öllum reglum heimilt að greiða fyrir hana lyfin sem væru dýr, skipti kannski hundruðum þúsunda kr. á hverju ári og Edda lýsti því að henni fyndist skjóta skökku við.

Frú forseti. Ég hlýt að taka heils hugar undir með Eddu Heiðrúnu Backman hvað þetta varðar. Það veldur áhyggjum og er umhugsunarvert að fólki skuli ekki vera í sjálfsvald sett á hvern hátt það bætir heilsu sína þegar um alvarlega sjúkdóma er að ræða. Af hverju fær þetta fólk ekki sjálft að meta hvað því er fyrir bestu og hvernig stendur á því að við á löggjafarsamkundunni treystum okkur ekki til að tryggja að val sjúklingsins sjálfs njóti þeirra sjálfsögðu réttinda að fá niðurgreiðslu frá Tryggingastofnun? Mér finnst í ljósi þess sem við höfum rætt um græðara og óhefðbundnar aðferðir á hinu háa Alþingi, og með nýjum lögum um græðara og málefni þeirra, hljóti að vera um einhvern lapsus að ræða. Kannski er þetta tímabundið ástand sem hæstv. heilbrigðisráðherra fer að kippa í liðinn. Ég vona satt að segja að svo sé og það komi þá í ljós í svari hans.