132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Öldrunargeðdeild á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

481. mál
[13:43]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þessa umræðu hér og þakka svör hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er mjög mikil gæfa að hafa unnið á deild eða stofnun fyrir gamalt fólk með geðrænan vanda. Það þekki ég af eigin raun. Danir hafa verið mjög framarlega þar. Þegar þeir lokuðu sínum kleppsspítala eða St. Hans þá var stofnunin flutt í litlar einingar á mjög góðum stað og með sérstaklega góðum aðbúnaði. Það má búast við fjölgun í þessum hópi miðað við umræðuna nú. Núna er þessi hópur ósýnilegur og á sér fáa talsmenn. Það er afar brýnt að vera með einhverja framtíðarmúsík í því og kannski er brýnt að gera úttekt til að byggja til framtíðar. Mér finnst það albrýnast núna því eins og er þá er þessi hópur að hluta til enn þá inni á gamla Kleppi og hefur kannski bara elst þar með stofnuninni, því miður, í stað þess að njóta sérúrræða sem henta þessum hópi.