132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Öldrunargeðdeild á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

481. mál
[13:49]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Sýn mín á þau mál er varða geðheilbrigðisþjónustu við aldraða er almennt á þann veg að þjóna fólki sem mest úti í samfélaginu. Hins vegar geta ekki allir notið þeirrar þjónustu, ég geri mér grein fyrir því. Það þarf að leysa á annan veg. En ég sé ekki fyrir mér stórar geðdeildir fyrir aldraða. Ég tel að það sé liðin tíð. Við þurfum að hafa slík úrræði í smærri sambýlum. Það er mikið að gerast í búsetumálum geðfatlaðra núna, menn eru að fara yfir það hvernig eigi að verja 1,5 milljörðum kr. í að bæta búsetuúrræði þeirra. Það mun væntanlega leiða til þess að útskrifaður verður af geðdeild Landspítalans töluvert stór hópur fólks. Það mundi þá þýða einhverjar breytingar þar og þetta vil ég sjá þegar niðurstöður starfshópsins koma.

Ég tel að það séu möguleikar núna á því að aðhafast í þessu máli. Við erum í miðjum klíðum í miklum skipulagsbreytingum varðandi búsetuúrræði en almennt talað vil ég byggja þjónustuna þannig upp að geðfötluðum sé þjónað úti í samfélaginu sem mest en það kunna alltaf að vera einhverjir og þar á meðal aldraðir sem þurfa úrræði á stofnunum. En stórar geðdeildir, hvort sem það er fyrir geðfatlaða almennt eða aldraða, ég vona að þær heyri sögunni til.