132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Umhverfisvænar kröfur til fiskiskipaflotans.

451. mál
[14:02]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég efast ekkert um vilja hæstv. sjávarútvegsráðherra og ekki heldur um vilja útgerðarmanna á Íslandi til að spara orku og nýta sér nýja tækni í því sambandi. Það er hins vegar mjög athyglisvert að stefna stjórnvalda hefur ekki miðað að því að draga úr orkunotkun við veiðar á Íslandsmiðum. Þar vantar býsna mikið á og væri hægt að gera mjög margt í því, bæði í þeim tilgangi að ganga betur um fiskimiðin og til að spara orku við veiðar á fiski. Þetta er hægt að gera með því að koma til móts við útgerðir sem nota vistvæn veiðarfæri og útgerðir sem nota litla orku til að veiða fisk. En það hefur aldrei mátt minnast á það í sölum Alþingis að fara slíkar leiðir. Ég spyr þess vegna hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann sé kannski farinn að velta því fyrir sér upp á nýtt að ástæða sé til að endurskoða þessa afstöðu.