132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Umhverfisvænar kröfur til fiskiskipaflotans.

451. mál
[14:06]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa áhugaverðu umræðu um mál sem skiptir heilmiklu. Ég held að enginn ágreiningur sé um þetta efni. Hvernig ætti það líka að vera?

Menn hafa brýnt mig til þess að standa sem best við bakið á þessu fyrirtæki. Það vil ég auðvitað gera eins og við önnur fyrirtæki á þessu sviði, þ.e. hátæknisviðinu, sem snerta hagsmuni sjávarútvegsins sérstaklega. Það hefur verið gert. Á vegum sjávarútvegsráðuneytisins starfar sérstakur sjóður, AVS-sjóður, sem fær yfir 200 millj. kr. á ári til að styðja við bakið á margs konar uppbyggingu á sviði sjávarútvegs, ekki bara á hátæknisviði heldur líka á markaðssviði og eldissviði. Enginn vafi leikur á því að þessi sjóður hefur haft heilmikið gott í för með sér.

Við fórum yfir það fyrir ekki löngu síðan, eftir að sjóðurinn hafði starfað í þrjú ár, hvernig hann hefur breytt í raun mjög miklu í rannsókna- og þróunarumhverfi sjávarútvegsins. Þarna hefur sennilega runnið í gegn á þessum tíma meira en 1 milljarður kr.

Auðvitað er mjög margt í svona nýsköpunarstarfsemi sem ekki tekst. Það þekkjum við. Hins vegar tekst mjög margt. Það sem hér er til umfjöllunar er einmitt gott dæmi um það.

Hér var sagt að þetta væri kannski ekki rétta skipið til að vera með þennan búnað vegna þess að skipinu væri ekki haldið nægilega mikið úti. Það er út af fyrir sig rétt. Ég vildi gjarnan að við hefðum enn meiri peninga til umráða til að halda úti hafrannsóknaskipunum. Við höfum verið að auka við þessa peninga. Ég lít þannig á að þetta sé viss hvatning til þess að nýja frumvarpið um Verkefnasjóð sjávarútvegsins verði samþykkt sem m.a. miðar að því að efla hafrannsóknir í landinu.

Í annan stað vil ég vekja athygli á því að sem betur fer hefur það gerst að þáttur þessara kyrrstæðu veiðarfæra sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi hefur aukist. Við höfum beitt sérstakri ívilnun í þeim efnum, ekki skattaívilnun heldur línuívilnun sem frægt er, til að örva menn til að nota þetta veiðarfæri og það er væntanlega þá í þessum anda.

Ég skal síðan taka undir það með hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að ég skal beita öllum mínum sannfæringarkrafti (Forseti hringir.) til að hvetja menn til að auka sparnað í útveginum, sem jafnframt stuðlar að góðri umgengni um miðin og umhverfisvernd í landinu.