132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Aukning umferðar.

472. mál
[14:12]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Björgvin Sigurðsson spyr:

„1. Hver er aukning umferðar um veginn á milli Selfoss og Reykjavíkur síðustu tíu árin, sundurgreint eftir árum?

2. Hver er aukning umferðar frá Reykjavík til Þorlákshafnar um Þrengsli, síðustu tíu árin, sundurgreint eftir árum?“

Samkvæmt upplýsingum úr mælingu Vegagerðarinnar eru þessar tölur þannig, og þá er miðað við ársdagsumferð sem er meðalumferð á hverjum degi á tímabilinu: Árið 1996 3.590 bílar, árið 1997 3.640, árið 1998 4.040, árið 1999 4.270, árið 2000 4.560, árið 2001 4.890, árið 2002 5.050, árið 2003 5.270, árið 2004 5.640 og árið 2005 5.990.

Umferðin um Þrengslaveginn sömu ár var 760 bílar árið 1996, árið 1997 820, árið 1998 870, árið 1999 930, árið 2000 980, árið 2001 1.040, árið 2002 1.080, árið 2003 1.100, árið 2004 1.100 og árið 2005 1.230.

Samkvæmt þessu hefur aukning umferðar á hringvegi um Hellisheiði verið 67% frá árunum 1996–2005 og aukning umferðar um Þrengslaveg 62% á sama tímabili.

Til samanburðar hefur aukning umferðar á hringvegi, Vesturlandsvegi sunnan Þingvallavegar, á sama tímabili verið 53% eða úr 6.700 bílum í 10.200 bíla sem er 71% meiri umferð en á veginum um Hellisheiði miðað við umferðina árið 2005. Á veginum um Reykjanesbraut sunnan Straumsvíkur hefur umferðaraukningin á umræddu tímabili verið 65% eða úr 5.600 bílum í Straumsvík á Reykjanesbraut í 9.300 bíla sem er 51% meiri umferð en á veginum um Hellisheiði miðað við umferð ársins 2005. Þetta eru mjög fróðlegar tölur og það er alveg augljóst að umferðin hefur vaxið mikið á veginum austur fyrir fjall. Það ber að undirstrika það, en umferðin er töluvert miklu meiri bæði á Vesturlandsveginum í gegnum Mosfellsbæinn og þar upp eftir og hins vegar á Reykjanesbrautinni.

Það hefur stundum verið í gangi misskilningur um umferðina um Hellisheiði, ég las það m.a. í blöðunum í dag að það er litið svo til að þar sé jafnvel meiri umferð en á þessum tilgreindu vegum. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að geta borið þetta saman til að átta okkur á því hver þessi hlutföll eru. Umferðin eykst alls staðar á þjóðvegakerfinu Bílaeign landsmanna hefur vaxið mjög mikið. Sömuleiðis eru flutningarnir miklir vegna þess að dregið hefur úr strandsiglingum og síðast en ekki síst, sem er auðvitað aðalskýringin, hafa umsvifin í samfélaginu aukist svo mikið síðustu árin. Þau kalla á flutninga, breytt skipulag í veiðum og vinnslu sem leiðir til þess að vegna uppboðsmarkaðakerfisins í sjávarútvegi er verið að kaupa og selja fisk um allt land og hann er fluttur þvers og kruss um landið og menn meta það svo í sjávarútveginum að það sé í þágu viðskiptahagsmuna sinna að stunda slíka flutninga.

Þetta eru tölurnar, virðulegi forseti, og þær tala sínu máli. Það er verulega mikil aukning á umferð og þess vegna er það sem ég tala sífellt um það í þinginu að við þurfum að leggja verulega mikla fjármuni í uppbyggingu vegakerfisins.