132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Aukning umferðar.

472. mál
[14:20]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta voru athyglisverðar tölur sem hæstv. samgönguráðherra las upp og sýnir einmitt í hnotskurn hvernig umferðarmunstrið hefur verið að breytast mjög ört. Ég held að þetta sé ekkert einsdæmi með Hellisheiðina og Þrengslin heldur sjáum við líka svipaða aukningu á Vesturlandsvegi og líka á Reykjanesbrautinni.

Það sem gerir hins vegar Hellisheiðina og Þrengslin svolítið sérstök er að ég hygg að þetta sé í dag einn hættulegasti vegur landsins. Þarna verða mjög mörg slys og við sjáum að reynslan af Reykjanesbrautinni eftir að hún var tvöfölduð hefur verið mjög góð og jákvæð. Þar hefur dregið stórlega úr slysum. Mér finnst því að kominn sé tími til að við förum að íhuga það núna við gerð næstu samgönguáætlunar að farið verði í að halda áfram vegabótum á veginum um Hellisheiði og Þrengsli og við íhugum þar þá svipaðar lausnir og við höfum valið á Reykjanesbrautinni bæði til að auka umferðaröryggi en líka til að greiða fyrir umferð.