132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Aukning umferðar.

472. mál
[14:21]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrri þessa fyrirspurn. Ljóst er að brýn þörf er á úrbótum á umræddri leið en svo er einnig víða á landinu.

Hv. þingmaður minntist á það í framsögu sinni að vegamál og samgöngur væru eitt af því sem hefðu stór áhrif varðandi samkeppnishæfni svæða. Ég ætla þá að minna á hver örlög Vestfjarðakjálkanum eru sköpuð í þessu efni þar sem ekki er aðeins verið að klifra upp og niður fjallvegi og fyrir firði alveg endalaust heldur er verið að keyra á malarvegum enn þá og ekki er reiknað með því að íbúar við norðanverða Vestfirði geti keyrt á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur á bundnu slitlagi fyrr en 2008 og ekki farið að tímasetja enn þá þann stað varðandi suðurhluta Vestfjarða. Mín skoðun er því sú að stórauka þurfi framlög til vegamála.