132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Aukning umferðar.

472. mál
[14:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þingmönnum fyrir fína umræðu um þessi mikilvægu mál.

Ljóst er eins og fram kom að umferðin um Suðurlandsveg, bæði Hellisheiði og Þrengsli, hvellspringur á toppum. Það er engin spurning. Gífurlegt álag er á veginum á þeim tíma, þegar þeir toppar nást er engum ofsögum sagt að vegurinn er þá örugglega á meðal þeirra hættulegustu sem er að finna, það gefur augaleið.

Það hefur einnig komið fram að umferðartjón á veginum er að meðaltali fjórfalt hærra en umferðartjón annars staðar og reynslan frá Reykjanesbraut sýnir að eina leiðin til að ná fram viðunandi umferðaröryggi á svo fjölförnum vegum er að tvöfalda veginn og skilja á milli akreina. Að skilja á milli akreina er algert grundvallaratriði. Það liggur þessu öllu til grundvallar og við eigum að berjast fyrir því að á næstu fjórum árum verði vegurinn um Hellisheiði, Suðurlandsvegur, tvöfaldaður frá Rauðavatni á Selfoss. Það er algert grundvallaratriði þó svo einhverjir kaflar hans væru 2+1 en tvöfaldur vegur skiptir öllu máli á þeirri leið.

Tæplega 70% umferðaraukning á áratug er gífurleg umferðaraukning. Tölur segja mér að meðaldagsumferð núna, ársdagsumferð á Sandskeiði sé um 7.300 bílar, 10% aukning á Sandskeiði á milli ára og eins er umferðaraukningin á milli Selfoss og Hveragerðis gífurleg. Að meðaltali er þessi aukning á tíu árum um 60–70%. Vegurinn er löngu sprunginn og umferðaröryggi kallar á bráðar framkvæmdir. Hellisheiði í hers höndum skrifar Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, í Morgunblaðið í dag og mælir þar orð sem margir hugsa sem aka þá leið af því að fólk upplifir veginn óöruggan þegar umferð er mikil á honum. Það verður að ráðast í brýnar úrbætur á honum og við munum ræða það sjálfsagt áfram á eftir í næstu fyrirspurn sem lýtur einmitt að því máli.