132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Rekstur vöruhótela.

492. mál
[14:58]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er misskilningur að ræða mín hafi gengið út á það að hugsa fyrst og fremst um hagkvæmni flutningafyrirtækjanna. Ég lít svo á að þeim mun hagkvæmari sem flutningarnir eru þeim mun meira batnar hagur neytenda, ég tel að það eigi að vera hið stóra sjónarhorn. Flutningafyrirtækin eru þarna milliliður sem er afar mikilvægur og auðvitað þarf að reyna að sjá til þess að þróun flutningafyrirtækja og flutningastarfsemi í landinu sé á forsendum hagkvæmni.

Ég held engu að síður að við þurfum að velta þessu öllu fyrir okkur. Innkoma ríkisvaldsins við uppbyggingu vegakerfisins er liður í því. Þess vegna sagði ég að aðkoma stjórnvalda væri af þrennum toga má segja. Í fyrsta lagi að tryggja uppbyggingu vegakerfisins og það er náttúrlega mikil fjárfesting sem fæst ekki til baka nema að óverulegu leyti í gegnum skattlagningu á bílunum. Í annan stað kemur ríkið að rekstri hafnanna og hefur greitt verulegar fjárhæðir í styrki vegna hafnarmannvirkja, sem er í rauninni beinn og óbeinn ríkisstyrkur við flutningastarfsemina í landinu, þó að það hafi fyrst og fremst beinst að sjávarútvegi í gegnum tíðina en flutningar sjóleiðis eiga allt undir því að hafnirnar séu til staðar og ríkisstyrkirnir til hafnanna eru það. Það er alveg klár stefnumörkun hjá Alþingi með hafnalögunum að leggja til fjármuni úr ríkissjóði til að lækka flutningskostnaðinn hjá sjávarútveginum og hjá flutningafyrirtækjum. Ríkisvaldið kemur því að þessu með margvíslegum hætti og um það hefur ríkt býsna góð samstaða í þinginu.