132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Menntun leikskólakennara.

437. mál
[15:03]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Nám fyrir leikskólakennara er annars vegar í boði í Kennaraháskóla Íslands og hins vegar við Háskólann á Akureyri. Árið 2005 voru 206 nemendur innritaðir í leikskólakennaranám við Kennaraháskólann, bæði í fjarnám og staðnám við skólann. Alls var 139 einstaklingum synjað um skólavist árið 2005 við Kennaraháskóla Íslands á leikskólakennarabraut. Haustið 2005 voru 19 nemendur innritaðir á leikskólakennarabraut á Akureyri í staðnámi og fjarnámi en 36 umsóknum var hafnað. Haustið 2004 innrituðust 192 í leikskólakennaranám við Kennaraháskólann en 95 var hafnað. Sama ár innrituðust 64 á leikskólakennarabrautina á Akureyri en 10 var hafnað. Árið 2000 innrituðust 91 í Kennaraháskólann og 60 í Háskólann á Akureyri og þá var 35 hafnað í KHÍ en engum í HA.

Líkt og sjá má af þessum tölum hefur orðið gríðarleg fjölgun, frá árinu 2000–2005, innritaðra í leikskólakennarafræði. Á árunum 2000–2004 fjölgaði innrituðum, rétt að draga það fram, í leikskólakennarafræðum um nær 70%. Á því tímabili tók Háskólinn á Akureyri að jafnaði inn ríflega 60 nemendur á ári. Hlutfall þeirra sem höfðu fullgilt stúdentspróf var mjög lágt á þessu tímabili, þ.e. bilinu 15–25%, enda nær engum vísað frá.

Eins og ég hef nefnt eru aðeins 19 einstaklingar innritaðir í leikskólakennarafræði við Háskólann á Akureyri árið 2005. Þar af voru allir nema einn með fullgilt stúdentspróf. Fækkunina má rekja til strangari kröfu skólans en vorið 2005 voru um 80% innritaðra á leikskólabraut við Kennaraháskólann ekki með stúdentspróf en tekið tillit til annarrar reynslu og menntunar. Reynt er að taka tillit til reynslu og menntunar en við viljum náttúrlega ekki gefa mikið eftir af kröfum til leikskólakennaranema. Annars vegar eru gerðar kröfur um gæði, um að uppfylla ákveða reynslu, þekkingu og hæfni, um leið og tekið er tillit til reynslu viðkomandi og bakgrunns hans. Reynt hefur verið að samtvinna þetta bæði í Kennaraháskólanum og Háskólanum á Akureyri. Í þessu sambandi skiptir líka máli að hafa hugfast að á árunum 2000–2005 fjölgaði innrituðum í leikskólakennarafræðum við Kennaraháskólann um 125%.

Síðan er spurt hvort áform séu um að heimila Háskólanum á Akureyri og Kennaraháskólanum að fjölga innrituðum í leikskólakennaranám. Ráðuneytið hefur unnið að því og mun vinna að því áfram að fjölga nemendum í leikskólafræði. Á undanförnum árum hefur nemendum í leikskólakennaranámi fjölgað umtalsvert í Kennaraháskólanum, þá einkum í fjarnámi. Sama fjölgun hefur ekki orðið við Háskólann á Akureyri en samanlagt er fjölgunin mun meiri í dag heldur en árið 2000.

Líkt og fram hefur komið ræðst þróun nemendafjöldans í Háskólanum á Akureyri af því að ekki hafa verið nægilega margir umsækjendur er uppfylltu inntökuskilyrði. Vandinn liggur ekki í því að háskólanum sé óheimilt að fjölga innritunum. Vandinn liggur ekki þar heldur í því að meðal umsækjenda eru ekki nægilega margir sem uppfylla inntökuskilyrði háskólanna.

Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði áðan, að í Kennaraháskólanum hefur fjöldi innritaðra aukist um 125%, sem sagt meira en tvöfaldast á árabilinu 2000– 2005. Sem stendur eru um 460 í námi í leikskólakennarafræðum við KHÍ og HA.

Á árinu 1999 fól menntamálaráðuneytið Talnakönnun að gera skýrslu um þörf á leikskólakennurum til ársins 2010. Í skýrslunni er gert ráð fyrir 100 útskrifuðum leikskólakennurum á ári og reiknað með því að þeir skili sér til vinnu í leikskólum í sama hlutfalli og áður. Í skýrslunni kemur fram að ekki þurfi að mennta marga kennara til að bæta úr þörfinni þar sem margir útskrifaðir leikskólakennarar starfi ekki á leikskólum.

Á undanförnum árum hefur útskrifuðum leikskólakennurum fjölgað hratt ár frá ári þar sem ráðuneytið hefur heimilað fjölgun nemenda í leikskólakennaranámi, bæði sunnan heiða sem norðan. Þrátt fyrir það hefur miðað hægt við að hækka hlutfall leikskólakennara, m.a. vegna fjölgunar stöðugilda í leikskólum auk þess að fjölmargir útskrifaðra leikskólakennara kjósa að starfa annars staðar en á leikskólum. Því er augljóslega ekki nóg að fjölga menntuðum leikskólakennurum.

Eitt mikilvægasta verkefni sveitarfélaganna á næstu árum er að tryggja að kjör og starfsumhverfi á leikskólum sé þess eðlis að við tryggjum fagfólk inni á leikskóla, að við tryggjum að leikskólakennaramenntaðir einstaklingar komi til starfa í leikskólunum. Það skiptir að mestu að mínu mati að umhverfið sé aðlaðandi. Innrituðum í leikskólakennaranámið hefur verið fjölgað. Fram á það hefur verið sýnt með tölum. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að mennta fólk í þær stöður en umhverfið þarf fyrst og fremst að vera aðlaðandi fyrir þessa ágætu stétt.