132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Fyrirframgreiðslur námslána.

438. mál
[15:16]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Til að það megi verða, þ.e. hvort til greina komi að breyta útlánareglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna þannig að lán verði greidd út fyrir fram þá þarf að breyta lögum um sjóðinn, en núverandi fyrirkomulag var innleitt árið 1992. Árið 1997 var reynslan af framkvæmdinni yfirfarin og niðurstaða þeirrar rannsóknar var að halda fyrirkomulaginu óbreyttu, þ.e. að borga lánin áfram út í lok þess missiris og til að bæta námsmönnum upp útborgunartöfina var jafnframt samþykkt að innleiða vaxtastyrki til viðbótar námslánum. Reynslan af þessu fyrirkomulagi er góð.

Ég vil því svara spurningunni um fyrirframgreiðsluna neitandi og ef ástæða væri talin til að auðvelda námsmönnum frekar en nú er lánsfjármögnun innan skólaársins þá teldi ég eðlilegast að skoða fjárhæð vaxtastyrksins og þær reglur sem gilda um útborgun hans. Í mínum huga er þetta spurning um forgangsröðun og nánari útfærslu á núgildandi reglum fremur en hverfa aftur til gamla tímans, þ.e. til áranna fyrir 1992, en á þeim árum var lánasjóðurinn líka illa staddur.

Ljóst er að fyrirframgreiðsla námslána yrði mjög kostnaðarsöm jafnvel þótt menn væru reiðubúnir að fara í innheimtuaðgerðir vegna ofgreiddra lána. Samkvæmt upplýsingum frá lánasjóðnum mundi fyrirframgreiðslan kalla á 2 milljarða kr. viðbótarfjárveitingu úr ríkissjóði og jafnvel þó að hún yrði innleidd í áföngum þýddi hún að lokum a.m.k. 4 milljarða kr. varanlega fjárskuldbindingu og árlegan kostnað að fjárhæð 180–200 millj. kr. Þá hefur ekki verið tekið tillit til kostnaðar vegna ofgreiddra lána. Hann mundi ráðast af þeim reglum sem settar yrðu um innheimtuna en sjóðurinn telur óvarlegt að áætla kostnaðinn undir 300 millj. kr. á ári. Á móti mundi kostnaður vegna vaxtastigsins að fjárhæð 120 millj. kr. sparast þannig að árlegur viðbótarkostnaður væri því samtals 350–400 millj. kr. Kostur við vaxtastyrkinn sem er ákveðið hlutfall af framfærslu og bókláni er að hann er borgaður út án tillits til þess hvernig námsmenn fjármagna útgjöld sín innan skólaársins. Vaxtastyrkurinn er með öðrum orðum ekki háður því hvort námsmenn nota yfirdráttarheimild eða sparnað í þá fjóra tilteknu mánuði sem líða þar til námsframvindan fæst staðfest og framfærslulán LÍN kemur til sögunnar, þ.e. til útborgunar. Í mínum huga væri það skref aftur á bak ef LÍN færi inn á svið viðskiptabankanna með því að fjármagna fyrirframgreiðslu námslánanna. LÍN hefur á undanförnum árum átt gott og vaxandi samstarf við banka og sparisjóði, t.d. um bankaábyrgð í stað ábyrgðarmanna á námslánum. Í vaxandi mæli eru þjónustufulltrúar bankanna einnig að leiðbeina og aðstoða námsmenn vegna lánasjóðsmála enda eðlileg verkaskipting að þeir annist skammtímalánin og LÍN langtímafjármögnun.

Það verður að hafa hugfast að meðalnámslánið er að helmingi ígildi styrkveitingar ekki einungis vegna félagslegu aðstoðarinnar á námstíma heldur ekki síður vegna félagslegs tillits að námi loknu sem felst í tekjutengdum afborgunum og reglum um undanþágur frá afborgunum.

Síðan, virðulegur forseti, er spurt: „Hversu hátt hlutfall lántakenda sem úrskurðaðir voru lánshæfir stóðst ekki kröfur um einingaskil áður en lán voru afgreidd á árunum 2000–2005?“ Þá er rétt að draga fram að hlutfall þeirra sem ekki hafa reynst lánshæfir, þ.e. hafa ekki skilað lánshæfum árangri eða umbeðnum gögnum til sjóðsins, hefur farið lækkandi á árabilinu 2000–2005. Þetta hlutfall var 21,9% námsárið 2000–2001, 20% námsárið 2001–2002, 18,9% námsárið 2002–2003 og 16,8% námsárið 2004–2005. Það er þannig einkar ánægjulegt að lánshlutfall þeirra sem ekki eru lánshæfir fer lækkandi um leið og við verðum að hafa hugfast að fjöldinn hefur aukist gríðarlega og við sjáum að útlán sjóðsins hafa aukist mjög á undanförnum árum enda í samræmi við þá miklu menntasókn sem við höfum staðið fyrir á undanförnum missirum og árum.