132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Fyrirframgreiðslur námslána.

438. mál
[15:21]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir nokkrum vonbrigðum með svör hæstv. menntamálaráðherra. Ég leyfi mér að fullyrða að námsárið hjá íslenskum námsmönnum var mun betra fyrir árið 1992 en það ár var hætt að greiða lán fyrir fram hjá lánasjóðnum.

Nú er ástandið þannig að nemendur þurfa að byrja á því að fara og slá lán hjá bankanum. Stundum eru þetta yfirdráttarlán en í öllum tilfellum eru þetta lán með nokkuð háum vöxtum. Svo segir hæstv. ráðherra að það séu greiddir út vaxtastyrkir en þeir eru ekki borgaðir til allra. Hluti af þeim rennur auðvitað beint til bankanna aftur og þá má spyrja: Af hverju er verið að borga vaxtastyrki til einhverra sem ekki borga neina vexti af lánum? Mér þykir það dálítið furðulegt.

Kostnaðurinn 2–4 milljarðar þykir mér gífurlega hár og ég mundi gjarnan vilja sjá útreikningana á því. Er þetta ekki kostnaður sem lendir á nemendum í dag? Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að skipta um skoðun í þessu máli og taka þetta fyrir til hagsbóta fyrir íslenska námsmenn.