132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Fyrirframgreiðslur námslána.

438. mál
[15:22]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það var afleit ráðstöfun fyrir 14 árum þegar hætt var að greiða lánin út fyrir fram og eftirágreiðslur námslána teknar upp, afleit ráðstöfun og gífurleg mistök. Stjórnvöld hafa setið uppi með það og ekki lagt í að breyta því aftur. Og eins og hv. þingmaður sagði í ræðu áðan þá þykja mér tölurnar ákaflega háar og óska eftir því að hæstv. ráðherra geri aðeins ítarlegri grein fyrir því hvernig í ósköpunum þær eru samsettar. Þetta eru ákaflega háar tölur í þessu samhengi.

Þar fyrir utan er ég á þeirri skoðun og er sannfærður um að við eigum að stefna að því að leggja niður ábyrgðarmannakerfin á námslán og breyta hluta af námslánunum í hreina styrki hafi námsframvindu verið náð á tilteknum tíma. Eins og staðan er núna þá má hvort eð er reikna um helming lánanna sem styrk út af niðurgreiðslum og niðurgreiðslu á vöxtum o.fl. Það á því að þróa námslánakerfið nær því að verða styrkjakerfi, a.m.k. að hluta til, og það er algert grundvallaratriði að taka upp fyrirframgreiðslu námslána og leggja niður ábyrgðarmannakerfið, sem er mjög ósanngjörn ráðstöfun.