132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Fyrirframgreiðslur námslána.

438. mál
[15:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað á undan mér og þakka þeim fyrir að taka þátt í umræðunni um þær háu upphæðir sem hæstv. menntamálaráðherra nefnir hér. Mér finnst þær breytingar sem hér eru til umræðu ekki vera þannig að um svo ótrúlega háar upphæðir geti verið að ræða. Það er eingöngu verið að færa til greiðslutíma og ég mundi því vilja heyra frá hæstv. menntamálaráðherra hvað býr að baki þessum tölum, það er í rauninni ekki hægt að ræða þetta öðruvísi en að við fáum að vita nákvæmlega hvað liggur að baki þeim. Því eins og ég segi þá erum við ekki að leggja til einhverjar slíkar breytingar heldur einungis að færa til greiðslurnar.

Það sem ég vil ítreka hér við hæstv. menntamálaráðherra er að fá að heyra viðbrögð hennar við því sem ég nefndi í ræðu minni á undan og snýr að þeim aðilum, sem eru ekki margir sem betur fer en eru þó til, því kornunga fólki sem hefur af einhverjum ástæðum lent í vandræðum fjárhagslega, hefur lent í gjaldþrotum eða öðru þannig að það fær ekki inni hjá bönkunum með framfærsluna áður en það fær lán hjá lánasjóðnum. Spurning er hvort hægt sé að grípa til einhverra ráðstafana hvað þann hóp varðar. Því það er sorglegt að ungt fólk sem er að stíga fyrstu skref lífs síns og langar til að fara í nám til þess að byggja sig upp að nýju eftir svo skelfilega lífsreynslu sem fjárhagslegt áfall er, lendi í slíkri fyrirstöðu. Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra frá hæstv. menntamálaráðherra hvort hún sé til viðræðu um að gera eitthvað sérstakt fyrir þennan hóp sem ekki fær þar inni vegna þess að hann er, eins og fram kemur í svari við fyrirspurn Valdimars Leós Friðrikssonar, nokkuð fjölmennur.