132. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2006.

Íbúðalánasjóður.

[15:45]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það hefur komið fram í þessari umræðu, og reyndar einnig í fjölmiðlum, að bankarnir eru að niðurgreiða íbúðalánin. KB-banki hefur viðurkennt það. Við þekkjum þetta úr öðrum geirum verslunar og viðskipta, nefnilega að Bónus og Krónan áttu fyrir um ári síðan í miklu verðstríði og þá var farið að selja mjólkurlítrann á innan við eina krónu. Einhverra hluta vegna dróst samkeppnin saman og síðan hefur verð á vörum hækkað gífurlega. Það má einmitt leiða líkur að því að það sama muni gerast ef Íbúðalánasjóður hverfur af markaði. Það er auðvitað eðlilegt að fulltrúum íhaldsins á þingi sé annt um að bankarnir fari að græða, maka krókinn og þurfi ekki að niðurgreiða þessi lán. Við skulum líka athuga að bankarnir eru alls ekki tilbúnir til að lána alls staðar á landinu. Víða úti á landi eru þeir ekkert tilbúnir til að veita lán, hvað þá 90% lán. Þarna hefur Íbúðalánasjóður auðvitað mikilvægu hlutverki að gegna.

Þess vegna er mjög óvarlegt að rasa um ráð fram. Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að bankarnir binda viðskiptavini sína í báða skó, skylda þá til að vera í viðskiptum við sig og engan annan í allt að 40 ár. Er það eðlilegt? Er ekki verið að hindra þar með samkeppni? Einhverjir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gætu sagt að þetta væru eðlilegir viðskiptahættir en ég er ekki sammála því.

Þess vegna verður maður eiginlega að hrósa Framsóknarflokknum og það ekki oft sem maður getur gert það hér úr ræðustóli á þingi. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það væri óskandi að Framsóknarflokkurinn stæði í lappirnar í fleiri málum, t.d. í (Forseti hringir.) hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.

(Forseti (SP): Forseti biður þingmenn um að virða tímamörk í þessari umræðu.)