132. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2006.

Íbúðalánasjóður.

[15:47]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér er nokkur vandi á höndum, að koma upp í ræðustól og flytja þá ræðu sem ég ætlaði að halda því að tveir síðustu ræðumenn, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Hlynur Hallsson, sögðu efnislega nákvæmlega það sama og ég ætlaði að segja. Ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til að endurtaka það sem þau sögðu hér í ræðustólnum. Ég tek hins vegar undir málflutning þeirra. Ég hygg að það sé mjög varhugavert að tala hátt um hugmyndir um að leggja niður Íbúðalánasjóð. Hins vegar má að sjálfsögðu alltaf hafa það til hliðsjónar að endurskoða hlutverk hans og velta því fyrir sér. Hér er á ferðinni stofnun sem nýtur mikils trausts landsmanna, skoðanakannanir hafa sýnt það. Þetta er stofnun sem veitir ákveðið öryggi, til að mynda félagslegt. Þetta er stofnun sem lánar til húsnæðiskaupa úti á landsbyggðinni, á stöðum sem standa mjög höllum fæti, þökk sé núverandi ríkisstjórn. Ég sé í raun og veru ekki fyrir mér að þessir staðir og þeir sem eiga undir högg að sækja í þessu þjóðfélagi ættu svo auðveldlega að geta haldið vopnum sínum ef þeir yrðu gerðir — hvað eigum við að segja? — fórnarlömb, en þó kannski ekki. Samt, jú, við getum sagt það, fórnarlömb einkareknu bankanna. Síðan ber að benda á að það er kannski ekki alveg eins öruggt að bönkunum muni alltaf ganga jafn vel og þeim virðist ganga í dag. Þeir geta farið á hausinn eins og önnur fyrirtæki. Hvað gerum við þá? Það hefur gerst í nágrannalöndunum að bankarnir hafa farið þar að minnsta kosti eina kollsteypu. Ég man eftir því í Noregi fyrir ekkert mörgum árum. Þar hrundi bankakerfið, gerðist nánast á einni viku. Hið sama gæti gerst hér.

Er ekki betra að setja frekar Íbúðalánasjóðinn á og hugsa þessi mál aðeins áður en við höldum lengra, virðulegi forseti?