132. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2006.

Íbúðalánasjóður.

[15:49]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Markmiðið með húsnæðislögunum er alveg skýrt. Ríkisstjórnirnar, bæði þessi og sú sem sat á undan henni langan tíma, hafa haft ákveðin markmið varðandi húsnæðismál, að jafna stöðu landsbyggðarinnar og þéttbýlisins. Það hefur hvergi komið fram að til standi að hverfa frá þeirri stefnu, og enginn sagt það.

Hins vegar kann rétt að vera, og það ber að athuga það á hverjum tíma, að þetta sé ekki endilega það fyrirkomulag sem við þurfum. Það getur vel verið að hinu pólitíska stefnumáli megi ná fram á annan hátt. Það getur vel verið að við getum falið öðrum að sjá um þetta. Það er nauðsynlegt að skoða það. Það er verið að gaumgæfa alla þessa hluti og menn mega alveg trúa því að það verður ekkert hlaupið til þess að breyta þessu. Það verður ekkert rasað um ráð fram. Það er mjög nauðsynlegt að halda við þau markmið sem sett hafa verið. Menn mega vita að það verður gert. Það er engin nauð sem kallar á að öðruvísi sé á haldið. Það verður gert og menn geta alveg treyst því, eins og liggur fyrir. Það er hins vegar eðlilegt hjá hv. upphafsmanni þessarar umræðu (Gripið fram í: Nei.) að kalla eftir því hvernig við ætlum að gera þetta. Það getur alltaf orkað tvímælis. Eflaust má gera þetta miklu betur og öðruvísi. Ég er ekkert að segja annað. En að hverfa frá þeim markmiðum sem eru sett hefur aldrei staðið til, er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar, hjá hvorugum stjórnarflokknum. Það mega menn vita og því mega þeir trúa.