132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:35]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er í sjálfu sér ekki ný af nálinni og svipuð sjónarmið og hæstv. forsætisráðherra reifaði á viðskiptaþingi í gær eru sjónarmið sem hæstv. ráðherra hefur áður látið í ljósi þannig að í sjálfu sér þurfa sjónarmið hans ekki að koma á óvart í sambandi við þetta. Ég vil hins vegar segja að þetta er stórt mál sem hefur margar hliðar sem þarf mjög vel að hyggja að vegna þess að þetta er ekki alveg eins einfalt og það kannski blasir við við fyrstu sýn.

Ég vil segja varðandi beina fjárfestingu útlendinga í sjávarútvegi sem gefur útlendingum veiðirétt í íslenskri landhelgi þá eru þau mál ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Hvað kann að gerast í fjarlægri framtíð get ég að sjálfsögðu ekki fullyrt neitt um. Þetta er stórt mál, það mundi vekja upp alls konar spurningar sem menn yrðu að horfast í augu við og svara algerlega undanbragðalaust. Þetta eru sömu spurningarnar og við spurðum þegar útfærsla landhelginnar átti sér stað. Þetta er því ákaflega vandasöm umræða sem þarf mikinn undirbúning og langan aðdraganda. Þetta eru grundvallarspurningar sem snúa einfaldlega að því hvort við viljum að Íslendingar eigi einir veiðiréttinn í okkar eigin landhelgi. Ég er eindregið í hópi þeirra sem telja að forræði auðlindarinnar eigi að vera í okkar höndum.

Hins vegar eru miklar heimildir útlendinga til óbeinna fjárfestinga í íslenskum sjávarútvegi og margir hafa kannski ekki alveg áttað sig á því. Ýmis dæmi eru um að meðal hluthafa í íslenskum sjávarútvegi, sjávarútvegsfyrirtækjum, séu fyrirtæki sem séu að einhverju leyti í eigu útlendinga og ég tel það mjög eðlilegt. Það er ekkert sem bannar þetta og er hlutur sem við tókum ákvörðun um á sínum tíma. Síðan sjáum við nokkur dæmi, að vísu ekki mörg eða stór, um að útlendingar eigi í íslenskum fyrirtækjum sem eru markaðsfyrirtæki á sviði íslensks sjávarútvegs. Þar eru heimildir fyrir innkomu útlendinga sem ég tel eðlilega og sjálfsagða og geri ráð fyrir að við munum sjá frekari þróun í þá átt. Markaðsfyrirtækin okkar eru að stækka og sú stækkun mun örugglega gerast m.a. með sameiningu við erlend fyrirtæki.

Að mínu mati knýr ekkert sérstaklega á um fjárfestingar útlendinga í íslenskri útgerð núna. Útlendingar sækjast eftir Íslendingum til þátttöku í sinni útgerð. Það er eðlilegt. Þeir vilja auðvitað sækja besta fólkið en mér er ekki kunnugt um að krafist hafi verið einhverrar gagnkvæmni í þessu sambandi. Ég hef ekki orðið var við það og mér er ekki kunnugt um að það hafi komið fram hjá þeim sem starfa í sjávarútvegi og hafa verið að taka þátt í þessari útrás.