132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:37]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að full ástæða sé til að vekja athygli á ræðunni sem hæstv. forsætisráðherra hélt á viðskiptaþinginu í gær sem var um margt markverð og ýmislegt sem þar bar til tíðinda. Meðal annars hreyfði hæstv. forsætisráðherra því máli sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur gert að umtalsefni, þ.e. að opna þyrfti fyrir erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi. Þetta er náttúrlega ekki í fyrsta skipti sem það mál kemur upp og ég held að það sé mjög hollt fyrir þingheim að skoða þetta mál og velta því fyrir sér alveg óháð Evrópusambandsaðild. Við verðum að svara þeirri spurningu að ef til þess kemur í framtíðinni að opnað verði fyrir erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi hvernig við þurfum þá að hafa búið um hnútana þannig að þessi sameiginlega auðlind okkar, fiskurinn í sjónum, sameiginlega auðlind þjóðarinnar haldist í eign þjóðarinnar. Og þá hljótum við auðvitað að verða að taka á þeim málum í tengslum við þá stjórnarskrárvinnu sem nú fer fram og tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni. Við hljótum líka að þurfa að taka á því í tengslum við fiskveiðistjórnarkerfi okkar þannig að þjóðin geti í raun praktíserað þetta eignarhald sitt án tillits til þess hver hefur nýtingarréttinn á auðlindinni. Þetta eru því spurningar sem við verðum að svara og fara í gegnum. Við verðum að tryggja annars vegar í stjórnarskrá og hins vegar í lögum að þjóðin sé ekki bara í orði heldur á borði eigandi þessarar auðlindar burt séð frá því hvernig staðið er síðan að úthlutun á nýtingarréttinum.