132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:41]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra flutti ræðu og hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, a.m.k. utanríkisráðherra, komu inn á að þetta væri ekki stefna ríkisstjórnarinnar sem Halldór Ásgrímsson væri að tala um varðandi Evrópusambandið. Núna kemur hæstv. sjávarútvegsráðherra í pontu og segir að það sem Halldór Ásgrímsson talaði um í gær varðandi fjárfestingar í sjávarútvegi sé ekki stefna ríkisstjórnarinnar.

Ég velti fyrir mér, hæstv. forseti, hvort það sé svo að innan Framsóknarflokksins, í ljósi þeirra orða sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hafði hér áðan, að verið sé að ræða það að skipta á aðgangi á lækkun tolla inn í Evrópusambandið annars vegar og fjárfestingum í óveiddum fiski í sjónum í aflaheimildum á Íslandsmiðum hins vegar. Mér fannst mega ráða það af orðum hennar áðan að þetta þyrftu menn að skoða í samhengi. Ég ætla aðeins að lýsa skoðun minni á því, ég tel að ekki komi til greina að hleypa fjárfestingum inn í kvótakerfið, inn í okkar rétt til veiða á fiskstofnunum eins og kerfið er úr garði gert nú um stundir. Það kann vel að vera síðar að við berum gæfu til að festa þannig reglur í lög um fiskveiðar okkar að hægt sé að leyfa útlendingum að fjárfesta hér eitthvað í fiskiskipum og útgerð. En með núverandi fyrirkomulagi væri það afar neikvætt fyrir Ísland og mundi vera fjandsamlegt gagnvart byggð í landinu.