132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er ekki nýtt að formaður Framsóknarflokksins tjái hug stjórnenda Framsóknarflokksins til að ganga í Evrópusambandið, til að hleypa erlendum fjárfestingum inn í íslenskan sjávarútveg. Það sem er hins vegar nýtt er að forsætisráðherra, talsmaður ríkisstjórnarinnar sem við höfum talið vera svo, segi það opinberlega að stefnan sé að ganga í Evrópusambandið og telur afar brýnt að hleypa erlendum aðilum inn í íslenskan sjávarútveg. Það er nýtt. Þess vegna fagna ég yfirlýsingum hæstv. sjávarútvegsráðherra sem segir að engin innstæða sé fyrir þeim yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og ég lít svo á að þetta sé bara óvarkárt fleipur hjá hæstv. ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Ég fagna einnig þeim yfirlýsingum hæstv. sjávarútvegsráðherra að ekki standi til af hans flokks hálfu að hleypa erlendum aðilum inn í íslenska fiskveiðilögsögu til að eiga rétt til fiskveiða. Til einhvers var barist þegar útfærsla landhelginnar var gerð á sínum tíma til að við færum einhvern tíma að hleypa formanni Framsóknarflokksins til að opna hana nú aftur fyrir útlendingum. Það er nóg óöryggi sem íslenskur sjávarútvegur býr við nú vegna hás gengis og stóriðjustefnunnar þó þetta bætist ekki við. Ég tel því mikilvægt að ríkisstjórnin tali skýrt í þessu máli gagnvart einum höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, og treysti hæstv. sjávarútvegsráðherra til annaðhvort að knýja forsætisráðherra til að taka orð sín til baka eða ómerkja þau með öðrum hætti.