132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:57]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Varðandi Evrópusambandsaðild ætla ég að láta liggja á milli hluta hvort hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, er draumóramaður eða spámaður, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir telur hann greinilega vera. En hvað varðar yfirlýsingu hæstv. ráðherra um sjávarútveginn og vandann í sjávarútvegi tel ég að kjarni málsins sé sá að ekki sé skortur á erlendu eignarhaldi í íslenskum útvegsfyrirtækjum eða fiskvinnslu sem sé vandamál heldur tengist hann meingölluðu kvótakerfi þar sem hagsmunir fjármagns ráða of miklu á kostnað byggðasjónarmiða og almannahags.

Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir mjög skýr svör í þessu máli. Efnislega segir hann að ekkert knýi á um að viljayfirlýsing hæstv. forætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, um að opna fyrir erlent eignarhald í útvegsfyrirtækjum og fiskvinnslu nái fram að ganga.

Ósk mín er sú að ríkisstjórnin leiði þessi mál til lykta á næstu fundum sínum og helst áður en hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, flytur ræðu til þjóðarinnar um óskir sínar og drauma.