132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Skýrsla um framvindu byggðaáætlunar.

[11:01]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt áður en við förum í að ræða þá tvo dagskrárliði sem eru á dagskrá í dag að fá skýringar frá hæstv. iðnaðarráðherra um annan dagskrárliðinn sem er skýrsla um framvindu byggðaáætlunar 2002–2005, 398. mál á þskj. 504.

Mig langar að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hvað er nýtt í þeirri skýrslu sem nú er lögð fram á þessu þingi? Á 131. þingi var lögð fram skýrsla og hún er nær alveg eins og skýrslan sem við ætlum að fara að ræða á eftir. Sú skýrsla var reyndar rædd í október 2004. Síðan var lögð fram skýrsla iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005 á 130. þingi sem var útbýtt í þinginu 5. febrúar 2004, en var aldrei rædd.

Virðulegi forseti. Það sem mig langar bara að fá að vita hjá hæstv. ráðherra, sem er vafalaust með þetta allt saman á hrein: Hver er munurinn á milli þessara þriggja skýrslna? Þegar þessu er flett er þetta eiginlega allt saman eins. Það er fjallað um byggðaáætlun, meginþættina, og það er fjallað um aðgerðirnar 22 í skýrslunni sem var lögð fram á 130. þingi. Í skýrslunni sem var lögð fram á 131. þingi er þetta allt saman eins, meginþættir byggðaáætlunar og punktarnir 22. Sú skýrsla var rædd. Síðan er það skýrslan sem er núna á 132. þingi. Meginþættir byggðaáætlunar eru, 22 punktarnir og allt það. Mér virðist ekkert vera nýtt í þessu þannig að spurningin er sem sagt þessi: Hvað erum við að fara að ræða núna? Er eitthvað nýtt eða er þetta bara svona, eins og sagt er á tölvumáli, „copy and paste“?