132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Skýrsla um framvindu byggðaáætlunar.

[11:10]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst þessi umræða í þinginu vera farin að minna helst á hálfgerða grínstofu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hneykslast á því að hér eigi að taka til umræðu byggðamál og gera lítið úr þeirri skýrslu sem liggur til grundvallar.

Ég held að það sé mjög brýnt, virðulegur forseti, að við bara vindum okkur í þessa umræðu. Það er alveg ljóst að byggðamál eru mjög mikilvæg. Um 70% þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu og 30% á landsbyggðinni, og byggðamál eru mikilvæg fyrir báða þessa hópa, geysilega mikilvæg. (Gripið fram í.) Við skulum bara drífa okkur í þessa umræðu og hætta að karpa og, ég vil segja, stríða hæstv. ráðherra. Förum bara í umræðuna. (Gripið fram í.) Þeir sem hafa sig mest í frammi í þessari umræðu, þeir sem telja sig einhverja sjálfskipaða verði byggðanna, skulu bara vinda sér í umræðuna og taka almennilega á henni. Ekki gera einhver formsatriði að umræðu hér, virðulegi forseti.