132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[11:42]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra varð í ræðu sinni tíðrætt um mikilvægi samgangna innan svæða og var þar í engu ofmælt. Ísafjörður hefur verið tilnefndur sem þjónustukjarni fyrir Vestfirði en eins og kunnugt er er ekki um að ræða samgöngur milli suður- og norðurhluta Vestfjarða meginhluta ársins.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún hafi hugsað sér að beita sér fyrir því að Ísafjörður geti þjónað suðursvæðinu og hvenær. Ég legg áherslu á að úrbætur í samgöngumálum milli þessara svæða eru ekki síður mikilvægar fyrir norðursvæðið en suðursvæðið sem samkvæmt byggðaáætlun er ætlað að sækja þjónustu til Ísafjarðar.