132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[11:44]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að hryggja hæstv. ráðherra með því að ég sýni henni ekki skilning í þessu efni. Það er mín skoðun að allt tal um byggðaaðgerðir á svæðum eins og Vestfjörðum sé meira og minna marklaust hjal meðan samgöngur eru í því horfi sem þær eru í dag. Ef eitthvað á að vera að marka tal um uppbyggingu á Vestfjörðum erum við að tala um tugmilljarða framkvæmdir í vegamálum. Á Vestfjörðum þurfum við að koma vegum niður á láglendi eins og á öðrum stöðum landsins. Við þurfum líka að sjá til þess að hægt sé að ferðast milli Vestfjarða og Reykjavíkur á tilteknum lágmarkstíma en því miður sjást þess engin merki að hæstv. ríkisstjórn sýni metnað í því efni.