132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:12]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er alveg kunnugt um að vaxtarsamningurinn fyrir Eyjafjarðarsvæðið nær til þeirra byggðarlaga sem ég nefndi. Engu að síður er það staðreynd að fólki fækkar í þessum byggðarlögum og ég ætla að leyfa mér að fullyrða það hér að vaxtarsamningur af því tagi sem er á þessu svæði mun ekki virka til að styrkja þau byggðarlög sem þarna er um að ræða nema þá á mjög löngum tíma. Það getur kannski gerst á mjög löngum tíma, 20 árum eða svo. En það bara dugir ekki. Vegna þess að það sem mörg þessi byggðarlög standa frammi fyrir núna er einfaldlega fækkun frá ári til árs. Og það er sá vandi sem maður hlýtur að spyrja hvernig menn ætli að takast á við. Ætla þeir að horfast í augu við það og grípa til aðgerða sem gera fólki kleift að búa þarna og lifa ágætu lífi og njóta allra lífsgæða þó svo að ekki verði um fjölgun að ræða? Eða geta menn séð það fyrir sér að þessi byggðarlög verði styrkt með einhverjum hætti þannig að fólk flytjist til þessara svæða?

Varðandi sjávarútvegsmálin þá er auðvitað sjálfsagt að ræða þau almennt við hv. þingmann ef hann svo kýs og við getum tekið um það alveg sérstaka umræðu hér í þingsal. Ég held að Samfylkingunni hafi fremur verið legið á hálsi fyrir að hafa of afgerandi stefnu í sjávarútvegsmálum heldur en hitt. Og grundvallaratriði þeirrar stefnu (BJJ: Hver var hún?) er auðvitað það að þjóðin á þessa auðlind. Tryggja þar eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni í stjórnarskrá. Það þarf að tryggja það í gegnum lagasetningu að þjóðin geti síðan notið ávaxtanna af þessari auðlind (Gripið fram í.) sinni og haft á henni virkt eignarhald eins og henni auðvitað ber. Því ef hægt er að tryggja það, virðulegur forseti, þá þurfum við ekkert að óttast (Gripið fram í.) svo mjög um það þó að einhverjir erlendir aðilar (Forseti hringir.) komi og vilji fjárfesta í greininni eins og ýmsir hér óttast greinilega svo mjög.