132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:14]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur lítið verið gert, sagði hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og ríkisstjórnin ekki verið með neinar mótvægisaðgerðir. Ég vil leyfa mér að mótmæla því. Hvernig haldið menn að staðan væri í dag ef ekkert hefði verið gert? Ég var að koma frá Höfn í Hornafirði í morgun og ég hitti menn í gær og í morgun, sem einmitt eru að vinna í þessum vaxtarsamningi. Þeir hafa miklar mætur á þessum samningi og trúa að hann muni hjálpa þeim í því sem þeir eru að gera. Höfn í Hornafirði er ekki sterkt byggðarlag en þeir eru að vinna með Austfirðingum. Það er styrkurinn að byggðirnar eru að vinna saman til að efla sig en ekki hver í sínu horni.

Ég vil líka minnast á fjarnámið. Árið 1999 voru 377 nemendur í fjarnámi á framhaldsskólastigi, árið 2004 voru þeir 2.300. Árið 1999 voru 496 nemendur í háskólanámi í fjarnámi, árið 2004 voru þeir 2.450. Háskólinn á Akureyri er eitt besta byggðamálið sem gert hefur verið fyrir Norðurland. (Gripið fram í.) Það er alveg óhætt að segja að það væri undarlegt um að litast á Akureyri ef ríkisstjórnin hefði ekki tekið ákvörðun um það að stofna Háskólann á Akureyri.

Varðandi styrk vegna námskostnaðar. Þessi ríkisstjórn hefur hækkað þennan styrk ár frá ári. Auðvitað kostar alls staðar að lifa, hvort sem fólk er í heimavistarskóla eða annars staðar. Ég hef átt börn í námi fjarri heimili og þessi styrkur, þó að hann sé ekki nema 150–180 þús. kr., skiptir verulegu máli. (KLM: Finnst þér hann nægjanlegur?) Það má allt hækka og ég er alveg sannfærð um að (Forseti hringir.) ríkisstjórnin mun gera það áfram eins og hún hefur gert.