132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:18]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg óhætt að staðfesta að, og ágætt að hv. þingmaður gerði það, að afskaplega vel hefur verið staðið að dreifmenntun í landinu. Það eru einmitt þessar menntastofnanir sem skipta hvað mestu máli. Ég vil að auki minnast á þessar fínu menntastofnanir sem eru á Vesturlandi, Háskólann í Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri … (Gripið fram í.) skólann á Reykjum líka og Hólaskóla, sem er alltaf að eflast. Það hefur verið staðið afskaplega vel að þessum málum.

Ég ætla líka að minnast á framhaldsskólann í Grundarfirði, sem var stofnaður fyrir tveimur árum. Þar eru nú 200 nemar. Halda menn að það skipti ekki miklu máli fyrir þetta byggðarlag? Þangað sækir fólk til að afla sér viðbótarmenntunar, aukinnar menntunar, fólk á öllum aldri, sem er afskaplega gott.

Nú vilja Borgnesingar líka byggja framhaldsskóla, sem ég tel mjög jákvætt fyrir það byggðarlag og skipti miklu máli. Þetta er eins og með Sunnlendinga. Þeir vilja efla framhaldsmenntun á Suðurlandi. Þetta er krafan um land allt, að efla menntunina, einmitt eins og ríkisstjórnin er að gera.

Margt hefur verið vel gert af hendi Byggðastofnunar. Ég hef ekki tíma til að fara í það í þessu stutta andsvari en mun gera það síðar í dag og nefna öll þau góðu verkefni sem Byggðastofnun hefur lagt fjármagn til.