132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:36]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 og ég vil þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur fyrir hennar innlegg og tek undir með henni þar sem hún bendir á að fyrsta atriði þessarar þingsályktunar séu bættar samgöngur.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Unnið verður að mikilvægum samgöngubótum á landsbyggðinni samkvæmt samgönguáætlun og hugað að þróun almenningssamgangna.“

Síðar í plagginu er farið nánar út í útfærslu og talað um samgöngur innan Austurlands, Norðurlands og Vestfjarða.

Spurning mín og athugasemd við ræðu hv. þingmanns er hvort henni finnist ekki eðlilegt að bætt sé inn í þennan þátt áætlunarinnar þeim möguleika að frjáls félög eins og eru komin á stofn núna, t.d. Norðurvegur ehf., eða aðilar sem vilja fara í einkaframkvæmdir í samgöngumálum eins og Kjalveg, að slíkur þáttur sé tekinn inn í áætlunina, þ.e. að opna byggðirnar Suður- og Norðurland með Kjalvegi sem unninn yrði í einkaframkvæmd.