132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:43]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilið svar hvað þetta varðar.

Það er ljóst að þetta mál hefur aldrei komið inn á borð stjórnar þingflokkanna, til þingmannanna sjálfra. Það er greinilegt, miðað við það sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir segir, að þetta hefur verið á ríkisstjórnarbasis þar sem hæstv. ráðherra byggðamála hefur verið með það mál þar inni. En samkvæmt því sem hæstv. ráðherra hefur sagt þá er það þannig að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa stoppað þetta mál. (Iðnrh.: Ég hef aldrei sagt það.) Það getur ekki hafa stoppað neins staðar annars staðar vegna þess að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir lýsir því hér yfir að hún hafi ekki séð neinar tillögur um það í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og hvar getur þetta þá annars staðar hafa stoppað en í ríkisstjórn?

Hæstv. ráðherra byggðamála sagði á fundinum fyrir norðan og hér í skýrslunni segir: Ekki náðist samstaða um framkvæmdina. Þá er ekki hægt að draga neina aðra ályktun en þá að þetta hefur stoppað í ríkisstjórn af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.