132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

[13:31]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í nóvember 2005 birtist grein í tímaritinu Mannlífi þar sem fram kemur að á þeim tíma sem greinin er skrifuð hafi lögreglan fundið fimmfalt meira af örvandi fíkniefninu amfetamíni á árinu 2005 en allt árið 2003. Þá er vitnað í ársskýrslu SÁÁ þar sem fram kemur að áfengisneysla hafi á síðustu árum stóraukist. Þannig hafi hver Íslendingur yfir 14 ára aldri drukkið 4,6 lítra af hreinu áfengi árið 1993 en árið 2004 hafi neyslan aukist um 50%. Á sama tíma margfaldaðist sá fjöldi sem leitaði sér meðferðar vegna fíknar í örvandi lyf, eins og e-pillur, kókaín og amfetamín. Yfir 60% þeirra sem fá meðferð á Vogi, sjúkrastöð SÁÁ, eru háðir öðrum vímuefnum en áfengi. Kannabisfíklar sem sótt hafa meðferð á Vogi voru um 200 árið 1995 en um 600 árið 2004. E-pillufíklar eru sjö sinnum fleiri nú en árið 1999. Kókaínfíklar á Vogi voru 13 sinnum fleiri árið 2004 en fyrir 10 árum. Nýir amfetamínfíklar á Vogi voru 10 árið 1995 en 220 árið 2004. Á hverjum degi birtast fréttir um eiturlyfjaneyslu og nú á síðustu dögum fréttir af tilraunum til þess að smygla inn í landið óhemjumagni af eiturlyfjum.

Í nóvember var viðtal í sjónvarpsfréttum við Inga Bæringsson sem hefur unnið á meðferðarheimilinu Hvítárbakka þar sem unglingar á aldrinum 13–17 ára dveljast. Hann sagði að börn allt niður í 13 ára væru að sprauta sig, eiturlyfjasalan væri mun skipulagðari en áður og til að greiða fyrir eiturlyfin hefðu börn jafnvel leiðst út í vændi. Börn sem komin eru langt í neyslu geta ekki verið heima hjá sér, heldur liggja í bælum einhvers staðar í bænum og samkvæmt hans skilningi er það að vera á götunni. Hann sagði að þeim börnum sem væru í þessum aðstæðum fjölgaði með hverju ári. Einnig hafa birst fréttir þess efnis að þess séu einhver dæmi að eiturlyf séu seld á lóðum grunnskóla. Til að fjármagna neysluna leiðast börn út í vændi, afbrot, ofbeldi og þjófnað. Afleiðingar neyslunnar geta orðið alvarlegar geðraskanir sem kalla á meðferðarstarf og endurhæfingu sem ekki hefur verið sinnt nægjanlega af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þá kemur fram í ársskýrslu SÁÁ að fíkn í lyf sem ávísað er af læknum hafi vaxið verulega og sé aðalvandi 7–10% þeirra sjúklinga sem koma á Vog. Algengt er þó að lyfjafíkn tengist annarri fíkn. Um er að ræða róandi og örvandi ávanalyf og sterk verkjalyf. Þá sýndi bókin Skuggabörn og mynd um sama efni hrikalegan heim fíknar og fíkniefnasölu og afleiðingarnar vaxandi afbrot, gróft ofbeldi og vændi.

Virðulegi forseti. Þetta sýnir svo að ekki verður um villst að vímuefnaneysla hér á landi er mjög mikil og fer vaxandi. Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um aukið forvarnastarf og markvissari vinnu sjáum við ekki árangur. Stjórnvöld eru á rangri braut, horfast ekki í augu við þennan vanda, taka ekki rétt á málum í mikilvægum þáttum eins og í forvarnastarfi, meðferðarstarfi eða endurhæfingu. Og nú síðast er umræðan um innflutning eiturlyfja innvortis þar sem burðardýr leita til lækna en ekki liggur ljóst fyrir hvort læknum beri að tilkynna slík tilvik til lögreglu. Hvað varðar meðferðarstarfið hafa t.d. framlög til SÁÁ ekki fylgt verðþróun, hvað þá að tekið sé tillit til aukinnar starfsemi sem þar fer fram. Ekki virðist heldur um að ræða skipulagt fast samráð milli þeirra sem vinna að forvarna-, meðferðar- eða löggæslumálum, hvað þá skipulagt starf með skólayfirvöldum og foreldrum.

Ég spyr því ráðherra: Hver er árangur ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í baráttunni gegn vaxandi fíkniefnaneyslu í landinu? Hvað varðar forvarnastarf í grunn- og framhaldsskólum, er formlegur samráðsvettvangur skóla, foreldra og þeirra sem vinna að forvarnamálum í félags-, heilbrigðis-, dóms- og menntamálaráðuneytum? Er skipulagt samstarf milli þeirra sem vinna að forvarna-, meðferðar- og löggæslumálum á sviði fíkniefnamála? Ef svo er, í hverju er það fólgið? Hefur verið kannað nýlega hversu víðtæk fíkniefnaneysla er í grunnskólum og framhaldsskólum? Hvað kom út úr starfi nefndar sem stofnuð var á grundvelli þingsályktunar frá 3. maí 2002 um uppbyggingu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar og þátttöku ríkisins í stofnkostnaði og rekstri meðferðarstofnana? Er búið að ganga frá samningi vegna rekstrar sjúkradeildar SÁÁ að Vogi? Ef ekki, hver er þá ástæðan? Hvert er viðhorf ráðherra hvað varðar þagnarskyldu heilbrigðisstétta þegar um er að ræða smygl á eiturlyfjum sem borin eru til landsins innvortis?