132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

[13:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þær tölulegu staðreyndir sem hv. málshefjandi í þessari umræðu tíundaði í ræðu sinni eru mjög alvarlegar og bera vott um alvarlegt ástand í þessum málum í samfélagi okkar. Mér þykja varnir hæstv. heilbrigðisráðherra fremur veikar þó svo að ég viti og heyri á máli hans að hann sé allur af vilja gerður. Það erum við öll. En við þurfum að vera menn til að skoða þær áætlanir sem við höfum sett okkur, skoða þau markmið sem við höfum t.d. sett okkur í heilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi á sínum tíma, 2001, og athuga hvernig við stöndum gagnvart henni.

Nú er það svo að á síðustu 10 árum hefur áfengisneysla Íslendinga aukist um 40% og stendur núna í 6,5 lítrum af vínanda á hvern íbúa 15 ára og eldri á ári. Heilbrigðisáætlunin, sem við samþykktum, gerði ekki ráð fyrir að þetta mundi gerast. Þvert á móti. Árið 2010 ætluðum við að vera komin niður í 5 lítra á hvern íbúa yfir 15 ára aldri. Það er eitthvað sem gengur ekki upp í þeim aðferðum sem við notum. Ég spyr: Skila átaksverkefnin, sem hafa kannski einkennt þessa baráttu, ekki því sem höfðum vænst? Þurfum við að skoða framvindu þessara mála? Þurfum við að standa faglegar að málum? Já, ég held að við þurfum að gera það.

Ég held að við þurfum að vera í mikla sterkara samstarfi, og ráðuneytin innbyrðis sem þessi málaflokkur heyrir undir. Ég held að opna þurfi samstarf við háskólann þar sem rannsóknir verði margefldar. Ég held að efla þurfi samræmingu á meðferðarúrræðum um allt land og ég held að veita þurfi ungum fíklum sérstaka athygli. Varðandi forvarnirnar held ég að við verðum bara að bíta í það súra epli að við verðum að fara með þær miklu neðar í skólana. Loks eigum við að safna að okkur niðurstöðum frá nágrannalöndum okkar um bestu leiðirnar sem nágrannaþjóðir okkar hafa farið, hvaða árangri þær hafi skilað og innleiða þær, eins og ég segi, í nánu og opnu samstarfi ráðuneyta, Háskóla Íslands og þeirra aðila sem að þessum málum koma.