132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

[13:43]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að vekja athygli á þessari þörfu umræðu. Eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns hefur neyslan tekið ógnvænlega stefnu síðustu ár. Margföldun er á milli nokkurra ára á ýmsum sviðum neyslunnar og virðist sem núverandi aðgerðir yfirvalda, hvort sem um er að ræða forvarna- eða meðferðarstarf, dugi ekki til að stemma stigu við fíkniefnavandanum.

Ég tel sjálfur brýnt að heildarendurskoðun fari fram innan íslenskrar stjórnsýslu um hvernig bregðast skuli við hinum stórvaxandi vanda sem eitrar samfélag okkar Íslendinga, innan sem utan. Í því ljósi vil ég varpa fram þeirri skoðun minni að ég tel mikilvægt að lögð verði fram fyrir Alþingi lögbundin áætlun til nokkurra ára um aðgerðir samfélagsins gegn fíkniefnaneyslu á Íslandi. Við þekkjum áætlanir af þessu tagi á Alþingi í samgöngu-, byggða- og jafnréttismálum. Með starfi af sama tagi og heyra mundi undir aðgerðir samfélagsins gegn fíkniefnaneyslu tryggjum við aðkomu stofnana og lögaðila að störfum Alþingis við vinnslu slíkrar áætlunar og virkjum um leið þá krafta sem geta haft hönd í bagga með stjórnsýslunni við að ná fram raunverulegum árangri.

Hér til svara í dag er hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson. Vandinn er stærri en svo að eingöngu hann geti komið með töfralausnir. Árangur eða viðsnúningur á þeirri þróun sem því miður er uppi í dag snýr að allri ríkisstjórninni, öllum ráðuneytum, öllum alþingismönnum sem og flestum grunnstoðum samfélagsins, eins og til að mynda íþrótta- og æskulýðsstarfi, dóms- og lögreglustarfi, félagslegum stoðum innan stjórnsýslunnar, sveitarfélögum, fjölskyldum og svo má lengi telja. Til að tryggja sameiginleg markmið og einbeittan vilja allra við að ná fram árangri er brýnt að sem flestir starfi saman. Árétta ég því aftur mikilvægi þess að Alþingi verði sá starfsvettvangur þar sem vinna við lögbundna áætlun og stefnu samfélagsins gegn fíkniefnaneyslu fari fram. Vil ég því nota tækifærið og fá viðbrögð hæstv. heilbrigðisráðherra í seinni ræðu sinni á eftir við þeirri hugmynd sem hér hefur verið minnst á.