132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

[13:46]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Fíkniefnavandinn er staðreynd og hann snertir æ fleiri fjölskyldur í landinu og kemur upp víða. Ég sá t.d. út um gluggann hér á skrifstofu minni einn daginn í vor sem leið fíkla sem voru að sprauta sig. Það var mjög óhugguleg sjón.

Ég vara við patentlausnum í þessum málum, vara við því að herða refsingar. Ef við tökum t.d. unga fólkið sem tekið var í tollinum í þessari viku þá er ég ekkert viss um að þau hefðu hætt við þessa för til útlanda að sækja fíkniefnin þó svo að dómurinn væri sex mánuðum eða árinu þyngri. Menn verða einnig að líta gagnrýnum augum á þær forvarnir sem eru fyrir hendi í þjóðfélaginu og hvers vegna þær skila ekki árangri.

Ég vil vekja athygli á góðri grein sem ég las um daginn í Morgunblaðinu en þar skrifaði Hallgrímur Óskarsson um forvarnir, að þær gætu jafnvel snúist upp í andhverfu sína og benti á að ef þær væru of dramatískar og ef jafnvel fyrrum fíklar væru búnir að ná sér og væru orðnir vel hressir gæti slíkt jafnvel sent röng skilaboð út í samfélagið. Ég er því á því að við þurfum að skoða þessi mál vel og fara yfir hvað skilar sér. Einnig eru varasöm þau skilaboð sem fjölmiðlar senda oft út í samfélagið um að hér séu gríðarlega miklir peningar í veði, vegna þess að margir halda að þarna sé jafnvel hægt að auðgast og það gerir þetta spennandi. Staðreyndin er sú að þetta er ekki spennandi heimur og við verðum að senda þau skilaboð að fólk sem ánetjast fíkniefnum á við heilsuvanda að stríða og oft og tíðum er það í fjárhagskröggum. Það eru staðreyndir málsins og ég tel mjög brýnt að við reynum að koma þeim skilaboðum út í samfélagið.