132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

[13:48]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um fíkniefnaneyslu sem væntanlega er mun meira vandamál en margur gerir sér grein fyrir. Í þættinum Reykjavík síðdegis á þriðjudaginn talaði Mummi í Mótorsmiðjunni um að við séum komin aftur á byrjunarreit varðandi aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

Mig langar að snúa mér að rót vandans, hverjar séu í raun orsakir fíkniefnaneyslu. Getum við unnið að því að koma í veg fyrir að fólk leiðist út í neysluna? Við skulum líta á tvær orsakir og tökum eftir því að í báðum tilfellunum eða dæmunum sem ég nefni kemur fram að kerfið eða réttara sagt ríkisvaldið hefur gjörsamlega brugðist.

Bókin Sigur í hörðum heimi er um Guðmund Cesar Magnússon sem barðist við fíkniefnasala í þeim tilgangi að frelsa dóttur sína. Fjórtán ára dóttir hans var farin að neyta fíkniefna, hún hafði verið lögð í einelti í skólanum sínum. Það er m.a. talin ástæða þess að hún leiddist út í þessa ógæfu. Faðirinn bauð eiturlyfjabaróninum birginn og hvernig svöruðu þeir fyrir sig? Jú, það er kannski ekki ný saga, baráttan skilaði dótturinni en eftir sat faðirinn gjörsamlega farinn á taugum, gjaldþrota og með haglarann við rúmið. Til að frelsa dóttur sína frá fíkniefnaneyslu þurfti hann aðstoð kerfisins en það brást gjörsamlega, var gjörsamlega úrræðalaust og steinrunnið.

Önnur bók leiðir okkur líka að rót vandans, það er sagan um Thelmu Ásdísardóttur. Hún svarar mörgum spurningum fyrir þá sem efast um að kynferðisofbeldi sé til og þar erum við líka upplýst um það að sá sem verður fyrir kynferðisofbeldi er mun líklegri en aðrir til að leiðast út í fíkniefnaneyslu. En af hverju gengur svona illa að fá barnaníðinga dæmda, af hverju var kerfið svona úrræðalaust og af hverju er það svona úrræðalaust?

Það vakti athygli mína við lestur þessarar bókar að sömu barnaníðingarnir koma fyrir aftur og aftur og leggjast síðan á næstu kynslóð. En kerfið er gjörsamlega úrræðalaust, fyrningarfresturinn er eitt af því sem þarf að bæta til að koma í veg fyrir fíkniefnaneyslu unglinga.