132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

[13:52]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það eru óskemmtilegar fréttir sem berast okkur síðustu vikur í fjölmiðlum. Barnungir fíklar eru að flytja fíkniefni í miklum mæli til landsins. Þetta leiðir hugann að því að það var mikil bylgja á síðasta ári, ofbeldishrina á Akureyri t.d. þar sem fólk á unga aldri hafði ánetjast fíkniefnum sem leiddi síðan af sér ofbeldi eins og við þekkjum. Þetta varð til þess að ungt fólk reis upp, sýndi rauða spjaldið og hvatti til þess að umræða í þjóðfélaginu yrði aukin og að forvarnastarf yrði sett í forgang.

Lýðheilsustöð var að gefa út tímarit þar sem lögð er áhersla á hlut bjórsins í því að börn og unglingar ánetjast fíkniefnum. Við skulum ekki gleyma því að áfengi, sem er í raun og veru löglegt efni, er einmitt stór hluti af því að börn á unga aldri, allt niður í tíu ára, byrja að fikta með það og eitt leiðir síðan af öðru. Það er dálítið sorglegt að sjá það þegar auglýsendur eru farnir að beina athygli sinni að þessum hópi að þá liggi fyrir Alþingi frumvarp um að rýmka reglur um auglýsingar á áfengi. Mér finnst það mjög alvarlegt mál.

Það er lítill hópur barna og unglinga sem hefur ánetjast fíkniefnum og við þurfum að einbeita okkur að þeim hópi. Það þarf líka að taka tillit til þess í forvarnastarfi og í endurhæfingu þessa hóps að þau lendi ekki á sömu stofnun eða fái sömu meðhöndlun og fullorðnir. Það er mjög alvarlegt líka.